138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum ræða skattamál hér á Alþingi í dag. Við í minni hlutanum höfum lagt fram margar tillögur í þeim efnum og ég bar þá von í brjósti fyrir þessa umræðu að hæstv. fjármálaráðherra tæki vel í einhverja af þeim tillögum sem við höfum lagt fram. Nei, þess í stað hlustum við á ræður sem aðallega fjalla um fortíðina, ekki um framtíðina, hvernig á að hafa það. Og við hlustum á ræður sem eru uppfullar af persónulegum skætingi þar sem ráðherrann setur sig á hærra plan, talar niður til almennra þingmanna hér. Hæstv. ráðherra á að láta af þessum ljóta sið. Það á ekki að setja umræðuna hér á persónulegt stig. Við eigum að tala almennt um hlutina og ég bið hæstv. ráðherra, af því að hann gerir þetta ítrekað hér, sérstaklega á síðustu vikum, (Gripið fram í.) að láta af þessum leiðinlega sið.

Hæstv. forseti. Tækifærin eru hins vegar til staðar. Við getum unnið okkur út úr þessari kreppu, en við í minni hlutanum köllum eftir samráði. En eins og menn hafa heyrt í umræðunni er einfaldlega ekki vilji til þess hjá stjórnarliðum, aðallega ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn, að hlusta á þær tillögur sem við höfum lagt fram hér á undanförnum mánuðum og það gremst mér.

Þegar við tölum um skatta, og hæstv. ráðherra talar um að leggja verði á aukna skatta, getur vel verið að við getum í einhverjum tilvikum þurft að gera það en þeir mega ekki vera allt of háir. Hvað með grænu stóriðjuna þegar menn tala um kolvetnisskatta? Þar geta hundruð starfa tapast í garðyrkju, við getum tapað hundruðum starfa í iðnaði og við höfum bent á að með of hárri skattlagningu fækkum við störfum og minnkum tekjur ríkissjóðs. Hvað þurfum við þá að gera? Við þurfum að skera enn þá meira niður í rekstri hins opinbera. Við viljum jú öll forðast að sá niðurskurður verði of mikill.

Ef við tölum um skatta, eru 11% stýrivextir ekki skattar á heimilin og fyrirtækin í landinu? Ef tryggingagjaldið verður 8% á sveitarfélög og atvinnulífið, eru það ekki skattar líka? Við þurfum að horfa á heildarsamhengið í þessu og mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hefur hann skoðað hvert heildargreiðsluþol íslenskra heimila er á næsta ári gagnvart stórhækkuðum sköttum? Hefur það verið skoðað hvað íslensk heimili og íslensk fyrirtæki þola miklar skattahækkanir? Ég hef ekki séð það frá hæstv. ráðherra en þetta er verkefni okkar hér. Verkefni okkar hér er að reyna að standa saman í þessum efnum og við þreytumst ekkert á því í minni hlutanum að tala fyrir því að við aukum samráðið og samvinnuna við að leysa þessi erfiðu viðfangsefni.

Hæstv. ráðherra benti á það áðan, sem er náttúrlega ánægjuefni, að virðisaukaskatturinn hefur aukist í íslensku samfélagi, en ég held að hæstv. ráðherra viti það líka að verðlagið hefur stórhækkað. Fólk finnur mikið fyrir því hvað matvæli eru miklu dýrari núna en einungis fyrir nokkrum vikum. Að sjálfsögðu hækkar þá virðisaukaskatturinn. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Ég hvet hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra til að koma í lið með okkur í minni hlutanum, hlusta á einhverjar tillögur og vera uppbyggilegur í (Forseti hringir.) umræðu sinni — og bjartsýnn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)