138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:51]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér hafa menn þrefað um leiðir og bent ásakandi í allar áttir. Ég ætla ekki að blanda mér í þann slag. Þess í stað ætla ég aðeins að reifa það hvernig mér leið þegar ég sá í fréttum ríkissjónvarpsins í vikunni hvaða útfærsla væri ofan á við að auka skattheimtu. Ég tek fram að ég er ekki á móti þrepaskiptum hátekjuskatti en hann á þá að leggjast á háar tekjur, ekki millitekjufólk sem berst þessa dagana í bökkum. Þegar ég sá frétt ríkissjónvarpsins um fyrirhugaðar klyfjar sem á að bæta á almenning í landinu, ofan á gríðarlega kaupmáttarskerðingu, tekjutap og okurvexti sem leggjast ofan á stökkbreytt íbúðalán okkar, langaði mig mest til að panta flugfar fyrir alla fjölskylduna og koma mér í burtu og hefja líf einhvers staðar annars staðar þar sem sanngirni er gætt og lífskjör eru bærilegri. Við skulum ekki gera lítið úr þeirri erfiðu stöðu sem stjórnvöld eru í en vilji þau fá íbúa þessa lands með sér í uppbygginguna, vilji þau að fólkið haldi áfram að búa á Íslandi verður að leiðrétta höfuðstól íbúðalána vegna algjörs forsendubrests. Þegar það er búið, og ekki fyrr, fara hjólin aftur að snúast.

Ég veit að fólk er tilbúið að leggja sitt af mörkum, m.a. með aukinni skattheimtu, en ekki fyrr en þetta hefur verið leiðrétt. Við þessar aðstæður mun fólk sækja í svarta atvinnustarfsemi, ekki vegna einbeitts brotavilja heldur vegna þess að það er eina leiðin til að halda sér á floti.