138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlýjan hug í minn garð og þeirra verkefna sem verið er að vinna. En ég ítreka að sjávarútvegurinn, fiskveiðiauðlindin, er sú auðlind sem við byggjum hvað mest á og treystum á. Það er þess vegna mikilvægt að það magn sem gert er ráð fyrir að verði veitt heimild til að veiða sé veitt innan fiskveiðiársins, komi inn til löndunar, inn í atvinnulífið, inn í efnahagskerfið, og verði þá samkvæmt þeim væntingum sem gerðar eru þegar aflaheimildum er úthlutað fyrir fiskveiðiárið. Ég legg þunga áherslu á að þannig þarf þetta að gerast. Við þurfum á öllu okkar að halda núna.