138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta að útgerð og fiskvinnsla hefur verið framkvæmd samkvæmt lögum undanfarið og ég er ekki í tillögum mínum að leggja neitt annað til en að hér séu gerðar nokkrar breytingar á.

Ég vil minna á hversu miklu máli það skiptir fyrir okkur að færa þessa heimild á milli fiskveiðiára niður þó að það séu ekki nema þessi rúmu 15 eða 17%, þetta þýða nokkur þúsund tonn af fiski sem koma til veiða innan fiskveiðiársins, eins og ráð er fyrir gert, en er ekki geymd til næsta árs. Þegar við köllum eftir auknum aflaheimildum innan fiskveiðiársins núna, og menn geta fært töluverð rök fyrir því, er það númer eitt að við fáum samkvæmt núverandi úthlutun og samkvæmt núverandi kerfi þann fisk sem veitt er aflaheimild fyrir, inn á fiskveiðiárið. Þarna er, eins og ég lýsti áðan í ræðu minni, um nokkur þúsund tonn af fiski að ræða (Forseti hringir.) sem við fáum inn á þetta fiskveiðiár, ef þessar breytingar ganga í gegn, og það skiptir ekki svo litlu.