138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp fyrst og fremst til að lýsa óánægju með það verklag sem viðhaft hefur verið við vinnslu þessa máls. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra í upphafi framsögu hans að engin sátt væri um það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við alllangan tíma. Í mínum huga er það nokkuð ljóst að ástæðan fyrir því ósætti sem uppi er, er m.a. það verklag sem viðhaft hefur verið, að krukka í kerfið á undanförnum árum. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru í mínum huga þess eðlis að þær munu ekki verða til að skapa þá sátt um kerfið sem menn virðast kalla eftir. Því spyr ég hæstv. ráðherra, af því að hann lýsti því yfir að engin sátt væri um þetta, í hvaða mynd hann sjái fiskveiðistjórnarkerfið fyrir Ísland sem fullkomin sátt og eining ríki um.