138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi að krukkað hefði verið í kerfið á undanförnum árum. Ég vísa því frá mér að svara fyrir aðra sjávarútvegsráðherra á undanförnum árum sem hafa krukkað í kerfið með misjöfnum árangri, eins og hv. þingmaður minntist á. Ég hef aðeins verið ráðherra í nokkra mánuði og ber enga sök á því en þó er með þessu frumvarpi verið að reyna að bæta þar úr sem miður hefur farið.

Það er alveg rétt að í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar eru rakin brýn atriði sem ráðherra er falið að grípa til og koma í framkvæmd svo fljótt sem verða má. Þau lúta, eins og ég rakti hér, ekki beint að grundvallaratriðum fiskveiðistjórnarkerfisins heldur miklu meira að ákveðnum útfærsluþáttum þeirra. (Forseti hringir.) Varðandi síðan framtíðarfiskveiðistjórnarkerfið minni ég almennt á stefnu míns flokks hvað þetta varðar en að öðru leyti er þetta mál í höndum starfshóps sem ráðherra hefur skipað.