138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það sérstaklega fram að ég teldi það auðvitað mjög eðlilegt að hæstv. ráðherra kæmi hér fram með þingmál þar sem fjallað væri um einstaka þætti í fiskveiðistjórnarlögunum sem hann hefði skoðun á að þyrfti að breyta og ég geri engar athugasemdir við það.

Ég geri hins vegar athugasemdir við það að á sama tíma og hæstv. ráðherra biðst griða, biðst undan því að verið sé að ræða hina stóru drætti í deilumálunum varðandi fiskveiðistjórnarlögin, eins og hann gerði á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, og setji leikreglurnar í þá veru og biðji menn að hafa sig hæga í þeirri umræðu á meðan verið sé að fara yfir þau mál í þeirri stóru nefnd, sem hann hefur sjálfur sett á laggirnar og er rétt sest niður við störf sín, komi hann hér inn í þingið með mál sem lúta að þessum grundvallarspurningum. Menn geta haft mismunandi skoðun á þessum málum en það er ekki efni þess sem ég er að segja hérna. Ég er einfaldlega að segja að slík vinnubrögð eru ekki líðandi að sá sem setur leikreglurnar sé fyrstur manna til þess að brjóta þær.

Í því sambandi get ég vakið athygli á að hér er verið að taka á, hér er verið að gera eins konar fyrstu tilraun um fyrningu með aðferðinni um skötuselinn. Menn geta auðvitað haft mismunandi skoðun á því en vinnubrögðin eru hins vegar algjörlega ólíðandi.

Hitt sem ég nefndi einnig og hefur a.m.k. verið eitt stærsta álitaefnið varðandi fiskveiðistjórnarmálin eru framsalsspurningarnar sem ég reifaði áðan. Það er þetta sem ég átti við og gagnrýndi harðlega. Hv. þingmaður talar eins og að fiskurinn sem er geymdur eða heimildirnar sem eru geymdar á milli fiskveiðiára séu ekki veiddar. Það sem ég var einfaldlega að sýna fram á var það að sveigjanleikinn í kerfinu sem hæstv. ráðherra vill núna afnema hefur orðið til þess að menn hafa getað skipulagt sig betur, mætt þörfum markaðarins betur og þannig búið til meiri verðmæti. Hæstv. ríkisstjórn, ráðherrann og núna finnst mér hv. þm. Ásmundur Einar Daðason tala gegn því að menn nái að vinna með sveigjanlegu kerfi í því að hámarka arðinn og hámarka afraksturinn út úr þeirri (Forseti hringir.) fiskveiðiauðlind sem við höfum, sem er því miður ekki óþrjótandi.