138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp snýst um það að ná sem mestum afla að landi á þessu ári. Nefndin sem nú vinnur að stefnumótun og breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu heldur áfram og eins og hv. þingmaður veit, hann er á leið á fund nefndarinnar síðar í dag. (Gripið fram í.) Hún heldur áfram. Þetta snýst um það, vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðfélaginu, að ná sem mestum afla á land nú í ár, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt bent hvað mest á það að grípa verði til nauðsynlegra aðgerða til að auka hér verðmætasköpun. Þetta er ein aðgerðin í þá átt og ég lýsi mikilli furðu á því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skuli hér ítrekað tala gegn slíkum aðferðum.

Að lokum vil ég lýsa ánægju minni með það að hv. þingmaður skuli vera farinn að verja endurskoðun á sjávarútvegskerfinu með því að hampa hér og hæla þeirri nefnd sem það gerir. Hann mun örugglega koma að þeirri vinnu með jákvæðum hætti og skoða heildarendurskoðun á kerfinu.