138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gagnstætt því sem hv. þingmaður gerir ver ég nefnilega þetta verklag sem hæstv. ráðherra lagði upp með, þ.e. að sú nefnd sem hér er gerð að umtalsefni fái starfsfrið til að fjalla um þessi stóru erfiðu deilumál. Hafi ætlunin ekki (Gripið fram í.) verið að gera það er eins gott að leysa þessa nefnd bara frá störfum og hæstv. ráðherra setji þá hugmyndir sínar fram í þinginu, það er alveg sjónarmið. En ég er ekki sammála því, ég tel að frekar eigi að reyna að leita sátta (Gripið fram í.) og reyna að finna einhverja lausn í þeim efnum.

Hv. þingmaður talar af alveg ótrúlegum, ég vil ekki segja ókunnugleika en hann reynir samt sem áður að komast fram hjá staðreyndum. Auðvitað er það þannig að vegna þess að menn gátu geymt aflaheimildir milli ára, vegna þess fyrirkomulags sem núna er verður hægt að auka aflaverðmætið, auka verðmætasköpun í sjávarútveginum. Hæstv. ráðherra hefur með þessu frumvarpi þann yfirlýsta tilgang að draga úr sveigjanleikanum og það mun verða til þess að verðmætasköpun í sjávarútvegi verður minni.