138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru einkum tvö atriði í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar sem ég vil gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi að alltaf hefur legið ljós fyrir verkaskipting, annars vegar verkefni ráðuneytisins með þær brýnu og tilteknu aðgerðir sem ráðherra vill beita sér fyrir svo fljótt sem verða má og hins vegar verkefni starfshópsins sem hv. þingmaður nefndi og hlutverk hans.

Þar vil ég nefna að það eru m.a. einmitt þau áform um eignarhald í sjávarútvegi eða eignarhald í heimildunum, formlegar byggðatengingar o.s.frv. Menn hafa talað um fyrningarleið, innköllun á aflaheimildum o.s.frv. Þetta er eitt af þeim stóru framtíðarverkefnum sem tekist er á um, hvernig er farið með og þetta er þá verkefni starfshópsins.

Alveg frá fyrstu tíð, frá fyrstu utandagskrárumræðu hér á Alþingi um sjávarútvegsmál, þegar gefin var út reglugerð um aflamark á næsta veiðiári, hef ég alltaf greint frá því í ræðum hvaða tveimur atriðum væri verið að taka á. Þegar fyrsti fundur umrædds starfshóps var settur gerði ég mjög ítarlega grein fyrir þeim mörkum sem þar væru, þannig að þetta hefur alltaf legið fyrir. Komist starfshópurinn að niðurstöðu sem verður útfærð áfram í lagaheimild sem tekur að einhverju leyti á þeim atriðum sem hér eru, þá ræður Alþingi að sjálfsögðu ferð og þeim breytingum sem þar verða gerðar á. Þetta hefur allt saman legið nákvæmlega fyrir.

Varðandi það að verið sé að afnema sveigjanleika. Með því að takmarka flutning á milli næstu ára erum við að auka framboð á aflaheimildum innan ársins og þar á meðal líka fyrir þá sem (Forseti hringir.) leigja til sín aflaheimildir. Með því er ekki verið að taka afstöðu með eða á móti þessu framleigukerfi, en þarna er verið að (Forseti hringir.) færa auknar heimildir inn á fiskveiðiárið sem ætti líka að koma viðkomandi leiguútgerðum til góða.