138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur staðfest það að einn yfirlýstur tilgangur þessa frumvarps sé að auka leiguviðskipti með kvóta. Hann gerði það í þessum töluðu orðum og það er út af fyrir sig sjónarmið enda blasir það við að það er hluti af frumvarpinu sem hér er rætt um. Í því felst auðvitað ákveðin stefnumótun en hins vegar er það þannig að annað ákvæði í þessu frumvarpi, þ.e. 3. gr. frumvarpsins, felur það í sér að reyna að draga úr þessu leiguframsali. Það er það sem ég átti við þegar ég vitnaði í sálmaskáldið frá Bægisá að:

Eitt rekur sig á annars horn

eins og graðpening hendir vorn.

Hins vegar er það þannig að hvað sem hæstv. ráðherra segir blasir það bara við að hér er verið að taka á grundvallarspurningum. Eða er spurningin um framsalið ekki grundvallarspurning? Er þessi tilraunastarfsemi að fyrningu þar sem skötuselurinn er tilraunadýrið ekki grundvallarspurning? Hæstv. ráðherra er að brjóta þær leikreglur sem hann sjálfur setti og hann er í raun og veru að hverfa frá því þegar hann sagði að hann bæði menn að fara sér að engu óðslega og reyna að spara stóru orðin þegar kæmi að þessum stóru málum á meðan við værum með þetta inni í þeim sáttafarvegi sem ríkisstjórnin hefur talað um.