138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Í fyrsta lagi, frú forseti, þá er það hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sem er með stóru orðin í þessu sambandi. Ég legg áherslu á að allt það sem gert er hefur rækilega verið kynnt og verður unnið áfram.

Ég legg líka áherslu á að verið er að takmarka flutning á milli ára til að tryggja auknar veiðar núna. Ég er ekki að taka afstöðu til þess hvort leiguliðarnir eða að þeir sem eiga veiðiheimildirnar veiði heldur þess að fiskurinn sé veiddur og við þekkjum alveg samsetningu núverandi flota og erum ekkert að fara í kringum það.

Að síðustu, af því að hv. þingmaður minntist á þrengingarnar. Jú, ég ætlast til og það er lagt til að þeir sem hafa veiðiheimildir nýti þær annaðhvort sjálfir eða leigi þær frá sér og að þær séu ekki geymdar og notaðar í eitthvað sem sumir hafa kallað brask. (Forseti hringir.) Ég vil að fiskurinn sé veiddur og komi til lands innan fiskveiðiársins samkvæmt góðum og gildum leikreglum sem þarna eru settar.