138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi ég oftúlkað eitthvað af því sem hv. þingmaður hefur sagt varðandi leigukvótamálin dreg ég það að sjálfsögðu til baka. En það sem ég var að vísa til var ekki þessi hugmynd hv. þingmanns sem hún sjálf gerði að umtalsefni. Ég gerði hins vegar að umtalsefni fáeinar setningar í grein hv. þingmanns þar sem hún m.a. vék að því að útgerðarmenn — og nú held ég að ég sé örugglega ekki að oftúlka — væru vísvitandi að halda í við sig við það að leigja frá sér aflaheimildir til þess m.a. að gera einyrkjum erfitt fyrir og hækka leiguverð. Það var það sem ég ætlaði mér fyrst og fremst að reyna að vekja athygli á. Ég held að þetta sé ekki rétt, ég held að ástæðan fyrir því að leigumarkaðurinn er mjög lítill um þessar mundir sé einfaldlega sú að það er búið að draga saman aflaheimildirnar. Við erum með mjög öflugan flota og um þessar mundir eru góðar aðstæður til fiskvinnslu, m.a. vegna hins lága gengis íslensku krónunnar, þannig að menn eru einmitt um þessar mundir að reyna að halda úti öflugum veiðum og öflugri fiskvinnslu til að nýta sér það að raungengi krónunnar er lágt og framleiðnin af þeim ástæðum er góð. Það er aðalástæðan fyrir því að núna er minna framboð af leigukvóta.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði og ég hef sagt það mörgum sinnum og get enn kveðið þá góðu vísu að auðvitað fellir ráðherrann ekki niður störf sín varðandi endurskoðun á fiskveiðistjórnarlögunum en þá endurskoðun verður að gera með hliðsjón af því að þessi nefnd er að störfum og henni er ætlað að fara yfir megindrættina, stóru álitaefnin. Meðal þeirra álitaefna að mínu mati hljóta að vera t.d. spurningarnar um framsalið og þær spurningar sem núna vakna óhjákvæmilega og hafa þegar vaknað í þessari umræðu vegna útfærslu hæstv. ráðherra varðandi skötuselinn. Það er þetta sem ég er að segja, ég var að gagnrýna að í þessu frumvarpi væru ákvæði sem fara freklega inn á verksvið þessarar nefndar. Auðvitað hefur hæstv. ráðherra leyfi til að leggja fram hvað sem honum dettur í hug, (Forseti hringir.) en hann verður þá að virða sínar eigin leikreglur.