138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:17]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast vel við mín eigin orð í blaðagreinum og viðtölum að undanförnu um skort á leigukvóta og ég hef engu haldið fram um orsakir þess hvers vegna leigukvótaskortur er á markaði. Ég hef hins vegar vísað í upplýsingar sem fram hafa komið og fullyrðingar, bæði opinberlega og á fundum, um hugsanlegar orsakir. Kenningin er tvíþætt og þetta finnst mér eðlilegt að við hugleiðum. Kenningin er tvíþætt, hún er annars vegar sú að útvegsmenn treysti sér ekki og haldi að sér höndum varðandi leigu á kvóta vegna óvissu um framhald fiskveiðistjórnarmála. Það er önnur kenningin. Hin kenningin er sú að þeir haldi vísvitandi að sér höndum til að skapa skort á markaði, hækka leiguverð og setja þrýsting á stjórnvöld. Ég ætla ekki að kveða upp úrskurð um það hér og hef aldrei gert, hvor kenningin á meiri rétt á sér, hvor kenningin er rétt, en við megum hins vegar velta því fyrir okkur hver ástæðan kunni að vera og hafa það svona bak við eyrað í þessari umræðu. En ég frábið mér túlkanir um að ég hafi lagt (Forseti hringir.) út af þessum staðreyndum, sem eru alkunna í opinberri umræðu.