138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

skaðabótalög.

170. mál
[13:43]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993. Með frumvarpinu er lagt til að staða þeirra starfsmanna sem verða fyrir líkamstjóni við framkvæmd vinnu verði styrkt til muna. Felst í þessum breytingum veruleg réttarbót og er lagt til að réttarstaða launþega hér á landi verði hér eftir svipuð og tíðkast á öðrum Norðurlöndum.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að verði starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu, skerðist ekki réttur hans til bóta vegna þess að hann hefur sjálfur átt þátt í að líkamstjón hlaust af nema hann hafi sjálfur átt þátt í að tjónið varð af stórkostlegu gáleysi eða af ásetningi. Verði frumvarpið að lögum verða bætur til starfsmanns sem verður fyrir líkamstjóni því ekki lækkaðar, hafi hann valdið tjóni af einföldu gáleysi.

Í öðru lagi felst í frumvarpinu sú regla að látist starfsmaður af völdum slyss í starfi hans, skerðist bætur til framfæranda ekki vegna meðábyrgðar hins látna nema hann hafi átt þátt í dauða sínum af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi.

Er lagt til að hinar breyttu reglur taki strax gildi, verði frumvarpið að lögum, og taki til þeirra tjónsatvika sem verða eftir gildistöku laganna.

Með frumvarpinu er því lagt til að réttarstaða launþega verði hér á landi svipuð réttarstöðu þeirra launþega sem verða fyrir líkamstjóni við framkvæmd starfa sinna í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Jafnframt er hér haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var við setningu skaðabótalaga hér á landi á árinu 1993, þegar takmörkuð var ábyrgð starfsmanna á því tjóni sem þeir valda í starfi sínu, svo sem eins og sjá má af reglu 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á sú regla við um það tjón sem starfsmenn valda öðrum í starfi sínu. Hefur aukin útbreiðsla frjálsra ábyrgðartrygginga í atvinnurekstri einkum treyst þessa þróun hér á landi.

Með frumvarpinu er því lagt til að haldið verði áfram á þessari braut, og lagt til að staða þeirra starfsmanna sem verða sjálfir fyrir tjóni við framkvæmd starfa sinna verði styrkt með þeim hætti að létt verði áhættu af starfsmanni sem verður sjálfur fyrir líkamstjóni við framkvæmd starfa fyrir vinnuveitanda sinn.

Fyrir því eru margs konar rök, enda er starfsmaður sem verður fyrir líkamstjóni sem hefur varanlegar afleiðingar í för með sér, t.d. umtalsverða starfsorkuskerðingu til frambúðar fyrir hann, illa í stakk búinn til að bera sjálfur ábyrgð á tjóni sínu með þeim hætti að bætur til hans verði lækkaðar. Í þessu sambandi ber jafnframt að líta til þess að það er vinnuveitandi sem ræður skipulagi og framkvæmd starfa innan fyrirtækis hans og starfa starfsmenn undir boðvaldi hans, vinnuveitanda síns og geta óhlýðni við boð og bönn vinnuveitanda, m.a. um fyrirmæli um framkvæmd starfans, talist vanefnd á ráðningarsamningi af hálfu starfsmannsins og heimilað vinnuveitanda að grípa til úrræða gegn starfsmanni.

Er því lögð til framangreind breyting á skaðabótalögum svo réttarstaða starfsmanna sem verða sjálfir fyrir líkamstjóni verði frekar treyst.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.