138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[14:08]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að leiða umræðu og vera 1. flutningsmaður að þessu máli sem ég tel geysilega mikilvægt. Ég get tekið heils hugar undir öll þau atriði sem hún gat um í ræðu sinni. Það er mikilvægt að við fellum út undanþáguákvæði við banni við nektardansi. Við höfum rætt þetta margsinnis í þingsal. Sú breyting á lögunum sem hér er lögð til ætti að geta gengið hratt og vel fyrir sig í allsherjarnefnd vegna þeirrar vinnu sem á undan er gengin við umsagnir og annað. Þessi lagabreyting er fullkomlega í takt við aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn mansali sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 17. mars 2009 í tíð minnihlutaríkisstjórnarinnar. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera félagsmálaráðherra á þeim tíma og lagði fram skýrslu um þessa aðgerðaáætlun. Þar er einmitt tekið á þessum þætti sem varðar tengsl nektardansins við mansal. Það er rétt, mikil umræða hefur orðið um þennan þátt í mansali og mansalsmálin almennt. Fyrst þegar farið var að vinna að aðgerðaáætlun gegn mansali voru ekki neinar staðfestingar á því að nektardansinn hér á landi tengdist mansali, en svo sannarlega hefur komið í ljós síðar að það eru ljós tengsl þar á milli og mikilvægt að við tökum á þessum þáttum. Eitt atriðið sem getið er um í þessari aðgerðaáætlun er einmitt að vera með fortakslaust bann við nektardansi. Með því að samþykkja það erum við að feta okkur í gegnum þær aðgerðir sem ber að lögfesta samkvæmt aðgerðaáætlun stjórnvalda í þessu efni.

Mig langar líka að geta þess að sérfræðingur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Ruth Pojman, sem er sérfræðingur í mansalsmálum, ræddi hér á opnum fundi um þau mál nýverið, ég held að það hafi verið bara í síðasta mánuði. Þar hrósaði hún mjög íslenskum stjórnvöldum fyrir þessa aðgerðaáætlun sem geysilega mikil vinna var lögð í. Hildur Jónsdóttir, sem nú er formaður sérfræði- og samhæfingarteymis um mansalsmál, leiddi þá vinnu, var ákaflega dyggur baráttumaður í þessum efnum og vann ákaflega vel ásamt fjölda annarra aðila sem komu þar að. Án þess ég telji þá alla upp eiga þeir allir þakkir skildar.

Það hefur einnig komið fram, bæði hjá fulltrúa ÖSE sem var hér og víðar, að það að koma þessari aðgerðaáætlun í framkvæmd er mikilvægt skref fyrir okkur Íslendinga til að við getum uppfyllt alþjóðlega sáttmála sem tengjast mansali. Ég vitna hér, með leyfi forseta, í frétt í sjónvarpinu 30. október sl. þar sem Ruth Pojman segir:

„Aðgerðaáætlunin er heildstæð og ber þess merki að hér er góður starfshópur, sem er mjög gott. Og eitt það besta við hana er að hún virðist vera byggð á kerfi sem þegar er hér til staðar, og þið eruð lítið land en eruð þegar með sérstakan neyðarsíma og þjónustumiðstöðvar, lögreglu, landamæravörslu, og svo framvegis, og nú þegar þið eruð með samhæfingarlið þá þarf bara að koma aðgerðaáætluninni í gang og að tryggja að nægt fjármagn og þjálfun séu til staðar.“

Ég tel ekki að ég þurfi að fara neitt nánar út í umræðu um þetta sérstaka frumvarp. Ég er heils hugar í því að þetta mál verði að verða að lögum sem fyrst og er ótrúlega sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og fleirum í þessum sal um mikilvægi þess að taka á þáttum sem varða mansal. Ég tek undir hvatningu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur til allsherjarnefndar og þingsins alls um að samþykkja þetta frumvarp. Það er löngu tímabært.