138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

niðurstaða Icesave-samninganna.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er að verða komið ár síðan þáverandi utanríkisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum. Í framhaldi af því að mælt var fyrir málinu fór það til utanríkismálanefndar, fékk þar afgreiðslu og þingið samþykkti þingsályktunartillöguna í desember. Frá utanríkismálanefnd var tillaga um að ríkisstjórninni væri veitt heimild til að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld afgreidd með þeim orðum m.a. að skyldu samningar ekki leiða til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir Ísland væri það sjálfstætt úrlausnarefni hvernig stjórnvöld og Alþingi mundu vinna úr þeirri stöðu.

Sá ráðherra sem lagði fram þingsályktunartillöguna sjálfa fyrir tæpu ári tjáði sig um það nýlega í fjölmiðlum að við Íslendingar hefðum í þessum viðræðum komið til viðræðnanna eins og sakamenn. Það fer ekkert á milli mála að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra er afar ósátt við niðurstöðuna og telur að viðsemjendur okkar hafi ekki lagt neitt af mörkum til að finna ásættanlega lausn fyrir báða aðila, en það var einmitt það sem utanríkismálanefnd hafði í huga þegar hún veitti umboðið til viðræðna og meiri hluti utanríkismálanefndar afgreiddi með þeim orðum sem ég rakti áðan, að ef ekki fengist ásættanleg niðurstaða þyrfti að taka á því sérstaklega. Nú hefur hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra tjáð sig um málið. Það er augljóst að hún er ósátt við niðurstöðuna, telur að ekki sé neitt jafnvægi milli samningsaðila í málinu. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra, sem á þessum tíma gegndi varaformennsku í utanríkismálanefnd, hvort hann sé sammála þeirri niðurstöðu (Forseti hringir.) fyrrverandi utanríkisráðherra. Hvaða samningur var það annars sem gat mögulega verið óásættanlegur? Var ekki alveg ábyggilega lagt upp með það að ríkt tillit yrði tekið til aðstæðna á Íslandi?