138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

niðurstaða Icesave-samninganna.

[15:10]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan og hv. þingmaður hefur kannski ekki numið alveg nægilega vel er ég sammála fyrrverandi utanríkisráðherra um að ekki var nægjanlega gengið úr skugga um það í þessum samningum í upphafi að Brussel-viðmiðin giltu og tekið yrði tillit til hinnar sérstæðu og fordæmislausu stöðu Íslands. Það tel ég hins vegar að hafi náðst í því ferli sem síðan fór í hönd og ég held einfaldlega að það verk sem var unnið í sumar hafi verið mjög íslenskum þjóðarhagsmunum til góðs sem og sú seinni samningahrina sem fór af stað í kjölfarið. Ég held að við stöndum eftir með mun sterkari réttarstöðu, það sé mun betur um það búið hvernig tillitið er til stöðu Íslands. Ég held að við getum verið mjög sátt við þá niðurstöðu sem nú er komin í þetta mál og ég held að hún sé til þess fallin (Forseti hringir.) að við getum lagt þessu leiðindamáli og verið viss um að það sé að baki eftir þá niðurstöðu sem nú er fengin.