138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

endurreisn sparisjóðakerfisins.

[15:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur á síðustu mánuðum talað fyrir mikilvægi sparisjóðakerfisins í landinu, um það hvernig sparisjóðirnir geti mögulega verið lykilaðilar við uppbyggingu að endurreisn íslensks fjármálalífs. Sérfræðingur ríkisstjórnarinnar í endurreisn bankakerfisins, Mats Josefsson, sagði í viðtali í sjónvarpinu í gær að hann hefði tekið eftir því hversu mikill velvilji væri í garð sparisjóðakerfisins hér á landi og vakti vissulega athygli mína hvernig Mats talaði um þær mikilvægu stofnanir sem sparisjóðirnir eru.

Tíminn sem fer til spillis við þessa endurreisn er okkur mjög dýr. Um mánaðamótin júlí/ágúst samþykktum við í andarteppustíl frumvarp sem gerði ráð fyrir samstarfi ríkisvaldsins við sparisjóðina um enduruppbyggingu þess kerfis. Síðan þá hafa sparisjóðurinn BYR og Sparisjóður Keflavíkur náð samkomulagi við erlenda kröfuhafa en það sem strandar á í þeim efnum er að fá einhver svör frá ríkisstjórninni um hvernig aðkoma ríkisvaldsins verði að þessu. Á föstudaginn sendu erlendir kröfuhafar hæstv. fjármálaráðherra bréf, m.a. þýskir sparisjóðir sem eru orðnir mjög óþolinmóðir, þýskir sparisjóðir sem vilja efla og reisa við sparisjóðakerfið hér á landi. Beðið er eftir svörum frá hæstv. ráðherra um hvernig ríkisstjórnin ætlar að efna það sem hún hefur talað fyrir, að styrkja sparisjóðina í landinu.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvenær stendur til að að grípa til einhverra aðgerða til að reisa sparisjóðakerfið við? 105 dagar eru liðnir síðan við samþykktum hálfgerð neyðarlög á þingi til að bjarga sparisjóðunum. Ekkert hefur gerst á því tímabili og ég spyr líka hæstv. ráðherra, af því að sérstakur ráðunautur hans er varðar uppbyggingu bankanna hefur gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega: Má ekki vænta þess að þrátt fyrir þá gagnrýni muni Mats Josefsson áfram verða ríkisstjórninni til ráðgjafar (Forseti hringir.) og aðhalds þegar kemur að enduruppbyggingu efnahagslífsins?