138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

endurreisn sparisjóðakerfisins.

[15:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það var alveg gríðarlegur þrýstingur innan veggja Alþingis um mánaðamótin júlí/ágúst að við mundum drífa það í gegn að samþykkja löggjöf til bjargar sparisjóðunum í landinu. Það sagði m.a. hæstv. fjármálaráðherra. Það eru liðnir 105 dagar síðan það var. Á meðan bíða erlendir kröfuhafar, m.a., eins og ég nefndi, þýskir sparisjóðir sem trúa á þá hugsjón sem fylgir því að starfrækja sparisjóð og vilja koma þessu kerfi til hjálpar hér á landi. Þeir hafa mikið fjármagn til þess, eru erlendir kröfuhafar og þeir hafa ritað ráðherranum og ríkisstjórninni bréf og biðja um svör við þessu. Það eru rúmlega 100 dagar síðan við samþykktum löggjöf í þeim efnum.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri fyrirspurn minni í ljósi þess að sérlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, Mats Josefsson, hefur gagnrýnt hana harðlega vegna seinagangsins við endurskipulagningu bankakerfisins. Má vænta þess eftir þessa gagnrýni að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) muni halda áfram að þiggja ráð frá þessum sérfræðingi?