138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

endurreisn sparisjóðakerfisins.

[15:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef ég man rétt er samningurinn við Mats Josefsson a.m.k. út þetta ár. Ég veit ekki hvort tekin hefur verið ákvörðun um framhaldið. Hann kemur nú og gleður okkur með nærveru sinni sjaldnar en áður var, þ.e. hann hefur ráðist í fleiri stórverkefni, m.a. á Balkanskaganum. Ég tel að það hafi verið mjög gagnlegt og mjög gott að hafa Mats Josefsson. Hann hefur veitt aðhald og hann hefur verið ákveðin svipa á lofti þótt ég skrifi þar með ekki undir allt sem hann hefur sagt. Hann er kappsfullur maður og tekur stundum stórt upp í sig en það hefur verið gott að hafa ráð hans og reynslu og það aðhald sem í því hefur verið fólgið að hafa hann við borðið.

Varðandi erlenda kröfuhafa hef ég eytt talsverðum tíma undanfarna mánuði í samskipti við þá og það er ekki þannig að þeir bíði eftir því að rétta meiri fjármuni inn í íslenskt efnahagslíf eða íslenskt fjármálakerfi. Æ sér gjöf til gjalda. Það tilboð eða þær tillögur sem nú liggja fyrir um þátttöku þeirra í tiltekinni fjárhagslegri endurskipulagningu hefur það m.a. í sér fólgið (Forseti hringir.) að útgreiðslur komi til þeirra á móti sem sætt hafa gagnrýni eftirlitsaðila í þeim efnum. Ef til vill er það niðurstaðan að þeir eru ekki tilbúnir til að gera nóg til að þessir sparisjóðir komist með þátttöku ríkisins (Forseti hringir.) í lífvænlegt horf og það er það sem verið er að meta þessa dagana.