138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

krafa innlánstryggingarsjóðs.

[15:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 5. nóvember spurði ég hæstv. forsætisráðherra um efnahagslegar afleiðingar þess að krafa innlánstryggingarsjóðs á hendur Landsbankanum hefði verið fryst í krónutölu. Hæstv. forsætisráðherra sagðist vera að skoða það mál. Viku seinna spurði ég hana aftur að þessu og þá fékk ég svar sem ég skildi bara ekkert í, frú forseti. Það var um einhverja lagalega skoðun. Ég spurði hana um efnahagslegar afleiðingar. Nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem sér um fjármál ríkisins og vonandi ekki bara í dag heldur líka til framtíðar, (Gripið fram í.) hvort hann hafi látið meta þessa stöðu. Nefndir Alþingis eru að vinna í þessu máli núna, þær eru að afgreiða það út og þær vita ekki neitt hvernig þetta gerist.

Innlánstryggingarsjóður á þessa krónutölu sem eign og hann skuldar gífurlegar fjárhæðir í pundum og evrum með miklum og háum vöxtum. Hann fær hvorki vexti né verðbætur á þessa eign sína og þetta er geysilega áhættusamt og háð gengi krónunnar þegar þetta verður greitt út. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi þá látið skoða hvernig þetta er háð gengi krónunnar, hvaða áhætta er fólgin í því og hvort nefndir þingsins geti fengið þannig skýrslu til að byggja mat sitt á þegar þær afgreiða Icesave úr nefndunum.