138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

lög um greiðslujöfnun.

[15:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Nýlega samþykkti þingið frumvarp um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Nú hefur fulltrúi Samtaka fjármálafyrirtækja lýst því yfir að samtökin hafi lagt mikla vinnu í frumvarpið þegar það var í vinnslu í ráðuneytinu. Því langar mig að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Árna Pál Árnason: Hver ákvað að setja inn ákvæði um skattaniðurfellingu í frumvarp félagsmálaráðherra sem ætlað var heimilunum? Komu Samtök fjármálafyrirtækja að þeirri ákvörðun og þá með hvaða hætti?