138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

viðskipti íslenskra stjórnvalda og AGS.

[15:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar spurningar hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni. Það er alveg rétt að það hafa engir viljað sitja uppi með þá heitu kartöflu, eða hvað maður á að kalla það, að hafa neitað framgangi áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland og hafa bent þar hver á annan. Efnislega hefur það legið fyrir í mínum huga mánuðum saman að þessari endurskoðun mundi ekki ljúka fyrr en við værum búin að ganga frá þessu Icesave-samkomulagi, en hins vegar hafa menn notað ýmsa framsetningu á því formlega á hverju strandaði nákvæmlega, þ.e. hvort það væri að frágangur Icesave-málsins væri skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eða hvort það væri skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Norðurlöndin væru reiðubúin að reiða féð af hendi eða ganga frá lánunum eða að Norðurlöndin settu það sem skilyrði að við værum búin að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Þetta er að vissu leyti karp um keisarans skegg, þ.e. það lá fyrir efnislega að við yrðum að ganga frá Icesave-samkomulaginu, en hvort það var formlega vegna þessarar Norðurlandatengingar eða vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krafðist þess — það hefur hver bent á annan hvað það varðar.

Ég vil ekki halda því fram að Strauss-Kahn hafi farið með staðlausa stafi í þessu bréfi en vissulega fannst mér hann skauta dálítið létt yfir þessa tengingu. Hann verður sjálfur að bera ábyrgð á því, ég ætla ekki að gera það.