138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

viðskipti íslenskra stjórnvalda og AGS.

[15:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki gefið út allsherjarheilbrigðisvottorð fyrir alla sem hafa tjáð sig um Icesave-málið, þ.e. að þeir hafi allir sagt satt. Ég get auðvitað bara talað fyrir hönd sjálfs mín og minna og ég veit ekki annað en stjórnvöld og ég sjálfur hafi farið með rétt mál.

Ég verð nú að gera athugasemd við eina fullyrðingu hv. þingmanns og hún er sú að þetta mál hafi verið afgreitt í einhverjum flýti. Það eru núna komnir meira en 13 mánuðir síðan Landsbankinn, sem þetta snýst nú allt um, féll og það eru líklega einhverjir hillumetrar af ræðum og málsskjölum sem hafa orðið til. Það hafa verið haldnir ótal fundir, bæði í þingnefndum og í þingsölum, fyrir utan alls konar fundi á öðrum vettvangi til þess að fjalla um þetta mál þannig að þetta hefur verið reifað að mínu mati eins vel og hægt er. Það er varla hægt að tala um að eitthvað hafi verið keyrt í gegn með of miklum hraða.