138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur greinilega misskilið dálítið mikið þá gagnrýni sem var á sínum tíma á þá ákvörðun að auka svokallaðan geymslurétt á milli fiskveiðiára. Sú gagnrýni snerist alls ekki um að með þessu væri verið að ýta undir leiguframsal í aflamarkskerfinu, þvert á móti var gagnrýnin sú að það hefði slæm áhrif vegna að það drægi úr leiguframsalinu, þar sem hv. þingmaður kallaði brask varðandi kvótann. Það er því mikill misskilningur.

Hins vegar er staðreyndin sú að þetta hafði engin áhrif á það vegna þess að það er ljóst mál að nýtingin á geymsluréttinum var ekki svo mikil á milli fiskveiðiára. Hún snerist fyrst og fremst um það hjá þeim sem nýttu sér hana að reyna að draga úr sveiflunum sem ella hefðu orðið á möguleikum manna að sinna m.a. þeim mörkuðum sem menn hafa verið að byggja upp hörðum höndum.

Hv. þingmaður fagnaði hins vegar, um leið og hún gagnrýndi aukna veiðiskyldu, að verið væri að draga úr henni. Þá fagnaði hv. þingmaður því líka að nú væri verið að auka veiðiskylduna, sem þýddi að það sem hún kallaði „braskið“ hefði minnkað. Við ræddum þessi mál nokkuð fyrir helgina, ég og hv. þingmaður, vegna þess að ég vitnaði til greinar sem hún skrifaði, sem ekki verður skilin öðruvísi en svo að hv. þingmaður hafi talið að útvegsmenn væru með óeðlilegum hætti að koma málum þannig fyrir að það leiddi til þess að minna framboð væri af leigukvóta en þyrfti að vera. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hún telji æskilegt eða óæskilegt að það sé leiguframsal innan aflamarkskerfisins, að það sé þá æskilegt að draga úr leigukvótaframsali. Það gerir það auðvitað að verkum að ýmsir þeir sem hafa nýtt sér það, lenda í vandræðum, rétt eins og við höfum tekið eftir að menn hafa gagnrýnt á þessu ári. Menn hafa kvartað mjög undan því að hafa ekki fengið nægjanlegt aðgengi að leigukvótum. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég spyrja um afstöðu hv. þingmanns í þessu sambandi.