138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Spurningin var löng og ég er ekki viss um að ég hafi skilið hana rétt. Varðandi framboð á leigukvóta, ef þingmaðurinn á við það hvort ég telji óæskilegt að íslenskir útvegsmenn sitji á leigukvótanum og takmarki framboð hans, held ég að það blasi við að það gerir þeim mjög erfitt fyrir sem eru háðir því að fiska á leigukvóta. Því það vill nú bara þannig til að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við, kvótakerfið, kallar öðrum þræði á leiguliðakerfi. Það kemur í veg fyrir nýliðun og gerir það að verkum að umtalsverður hluti útgerðarmanna er algjörlega ofurseldur framboði á leigukvóta og á afkomu sína undir því. Þegar handhafar kvótans sitja á honum og hann er ekki í framboði lengur hefur það auðvitað slæm áhrif á þá sem eiga allt sitt undir leigukvótanum. En það er innbyggt í þetta óréttláta kvótakerfi, sem er ástæða þess að ég tel brýnt að breyta því.