138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:02]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki heyrt áhyggjuraddir vegna útbreiðslu skötusels eða að hann sé í neinni hættu á Íslandsmiðum. Hafrannsóknastofnun hefur ekki sett fram neinar sérstakar áhyggjur af því og ég kann ekki að skýra hvers vegna upphaflega var sett ákveðið aflamark á skötusel. Ég hef ekki heyrt það frá mönnum sem til þekkja í greininni og ekki heldur innan Hafrannsóknastofnunar að það hafi verið vegna þess að sá stofn væri í neinni sérstakri hættu. Þvert á móti virðist skötuselsstofninn vera frekar í sókn á Íslandsmiðum en hitt.

Varðandi vísindaveiðarnar hef ég lýst því áður að ef farið yrði að minni hugmynd yrði farið á frjálsar veiðar á þorski með tiltekinn fjölda skipa. Við skulum ímynda okkur 10–15 togara á miðunum. Þessi fjöldi skipa, ásamt tilteknum fjölda annarra fiskiskipa með önnur veiðarfæri, fengi að veiða frjálst. Stýringin færi frekar fram í gegnum tíma og svæði því að með því að gefa slíkar veiðar frjálsar yrði tíminn bara að ráða úrslitum um það hvað við teldum að kæmi mikið magn úr sjó með þessum frjálsu veiðum, hvort við værum þá að tala um sex mánuði eða níu. Síðan yrði það vísbending um m.a. stofnstærðir og magn þess fiskjar sem er að hafa upp af íslenskum miðum.