138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ágæt regla hefur verið viðhöfð í nýtingu á náttúruauðlindum í landinu, að náttúran sé látin njóta vafans. Ég vil þá ítreka þá spurningu til hv. þingmanns hvort hún telji að með því að fara 80% fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á skötusel sé verið að láta náttúruna njóta vafans. Telur hún að þetta hafi bara verið tala sem mönnum í Hafrannsóknastofnun hafi dottið í hug án nokkurra forsendna? Gefur hún henni þá einkunn?

Varðandi vísindaveiðarnar talar hún um að þetta eigi að vera tiltekinn fjöldi skipa, þetta eigi að vera frjálsar veiðar. Hún svaraði ekki spurningu minni um það hvort það ætti að vera gólf og þak í þessari kvótaúthlutun til þessara veiða, hvort það ætti að vera eitthvert lágmark og eitthvert hámark og hvaðan sá kvóti ætti að vera tekinn, hvort það ætti að gefa út viðbótarkvóta við núverandi aflaheimildir eða hvort þetta yrði tekið af núverandi aflaheimildum.