138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við eigum greinilega eftir að ræða heilmikið um þetta atriði því að miðað við svör ráðherrans finnst mér eins og hann átti sig ekki á kjarna málsins. Með þessum málflutningi er ekki verið að sinna einhverjum sérhagsmunum heldur heildarhagsmunum, m.a. þess starfsfólks sem vinnur hjá þessu fyrirtæki. Eins og framkvæmdastjóri Fisk á Sauðárkróki benti réttilega á þá sagði hann, með leyfi forseta:

„Ætla má að sá fiskur sem fyrirtækin kjósa að veiða ári seinna en ella hafi stækkað og gefi meira af sér, auk þess að þjóna þeim verndunarsjónarmiðum sem uppi eru.“

Ég hélt að hæstv. ráðherra væri fylgjandi verndunarsjónarmiðum og sjálfbærri þróun, því að fiskurinn stækkar á milli ára og þar af leiðandi getum við gert okkur það í hugarlund að það styðji við uppbyggingu fiskstofnanna í kringum landið og veitir svo sem ekki af því.

Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að ræða betur við okkur hér á þessum vettvangi, hvaða hugmyndafræði er á bak við þetta, hvaða samráð og hvaða samvinna var viðhöfð við aðila í sjávarútvegi? Þá erum við að tala um fiskverkafólk, sjómenn, útgerðarmenn, smábátasjómenn og fleiri aðila. Það er mikilvægt að við fáum það á hreint því að mér heyrist því miður í hverju málinu á fætur öðru að þetta séu einungis orðin tóm hjá hæstv. ríkisstjórn þegar hún talar um samráð og samvinnu við sem flesta í samfélaginu. Það er mikilvægt að hæstv. ráðherra, sem því miður getur ekki komið aftur upp í andsvar og verður þar af leiðandi að svara í seinni ræðu sinni í þessari umræðu, geri okkur grein fyrir því hvert samráðið var því að það er alltaf verið að tala um þetta samráð, en þegar öllu er á botninn hvolft virðist í máli eftir máli sem samráðsleysi sé frekar reglan en samráð. Það er sem sagt búið að snúa öllu á hvolf í þessum málum (Forseti hringir.) miðað við svarleysi ráðherrans. Ég hvet hæstv. ráðherra til að viðhafa meira samráð en mér heyrist að hann hafa beitt sér fyrir (Forseti hringir.) undangengnar vikur. (Sjútvrh.: Hann hefur staðið sig mjög vel í þessu.)