138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Hér er auðvitað á ferðinni mjög mikilvægt og stórt mál, sem lýtur að grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga, sjávarútvegi. Það er nú svo, frú forseti, að um þetta mál má örugglega hafa mörg orð og halda langar ræður og tíma okkar eru takmörk sett, en ég hef velt því fyrir mér varðandi þetta frumvarp og staðnæmst svolítið við það að mér finnast heildarafleiðingarnar af því vera heldur til hins verra og sumt í frumvarpinu finnst mér vera þess eðlis að það rekist hvert á annars horn. Ég verð að segja það og veit að það gleður nú ekki hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sérstaklega, að gangi þetta frumvarp eftir svona óbreytt þá auðveldar það okkur Íslendingum í það minnsta inngönguna í ESB, vegna þess að ein helsta hindrun þess að við göngum í það samband er einmitt sú að sjávarútvegur okkar og umgerðin utan um hann eru miklu betri heldur en þar og því miður finnst mér þetta frumvarp höggva þar nokkuð nærri. Ég trúi því nú ekki upp á hæstv. ráðherra að hann sé sérstakur áhugamaður um það, en ég veit að hér í salnum eru aðrir sem hafa nægan áhuga á slíkri vegferð.

En þá að einstökum greinum frumvarpsins, frú forseti, og frumvarpinu almennt. Reyndar fyrst, svo ég klári það nú, tek ég undir ummæli margra hv. þingmanna sem hafa bent á að það skjóti nokkuð skökku við hvernig þetta frumvarp er til komið, þegar sú ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra að setja málefni sjávarútvegsins í nefnd liggur fyrir. Það gerði hann með bréfi þann 3. júní og í því bréfi kom eftirfarandi fram um starfshópinn, með leyfi frú forseta:

„Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða.“

Mjög mikilvægt er að sátt náist um þessa mikilvægu atvinnugrein. Þess vegna hljóta menn í það minnsta að stoppa við ýmislegt í frumvarpinu og velta því fyrir sér hvort það sé til sátta fallið og hvort ekki hefði verið skynsamlegra að fara með ýmislegt í þessu frumvarpi frekar inn í þennan starfshóp og vinna það þar. Hitt er líka að í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar sendu forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar frá sér yfirlýsingu, dagsetta þann 28. október 2009, þar sem fram kemur um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin lýsir því yfir að engin breyting hefur orðið varðandi þann sáttafarveg sem endurskoðun fiskveiðistjórnarinnar var sett í með skipun nefndar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sumar, þar sem forsenda nefndarstarfsins er að skapa sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til langs tíma.“

Hér liggur þá fyrir bæði bréf hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem og yfirlýsing forsætisráðherra og fjármálaráðherra hæstvirtra, um að það eigi að vinna þetta mál með öðrum hætti en hér er lagt upp með, það verður að segjast eins og er. Og það eru ákveðin vonbrigði að þetta mál hafi gengið fram með þessu móti.

Eins vil ég nefna það áður en ég sný mér að einstökum greinum að auðvitað hlýtur það að valda hæstv. sjávarútvegsráðherra nokkru hugarangri að fylgjast með heimasíðu Frjálslynda flokksins þar sem fjallað er um það frumvarp sem sjávarútvegsráðherra telur sig sennilega hafa lagt fram í sínu nafni hér á þinginu, því þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Eftir því sem xf.is hefur fregnað um þátt formanns Frjálslynda flokksins í þessum breytingum þá er ekki ósanngjarnt að segja að nú sé verið að ræða frumvarp um breytingar til bóta á sjávarútvegskerfinu lagt fram af Frjálslynda flokknum, þótt flokkurinn eigi ekki þingmann á þingi í bili.“

Hér er vitnað til sérstaks ráðgjafa hæstv. sjávarútvegsráðherra og aðkomu hans að því máli sem hér er rætt, þ.e. þess frumvarps sem margir þingmenn telja að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi lagt fram á þinginu. Það væri ágætt ef sjávarútvegsráðherra nýtti tækifærið hér á eftir og leiðrétti þennan misskilning sem fram hefur komið frá þeim xf-mönnum.

Þá, frú forseti, að einstökum efnisgreinum frumvarpsins.

Fyrst um 2. gr., sem lýtur að því að minnka heimildir manna til yfirfærslu eða tilfærslu milli ára. Í sjálfu sér skil ég vel mörg þau sjónarmið sem þar hafa komið fram, en mikilvægt er að þessi möguleiki sé til staðar, hvort sem hann er 15% eða 33%, þó ætla ég svo sem ekki að vera einhver sérfræðingur í því máli. En það kemur fram og þeir sem þekkja til í greininni vita það að t.d. eins og í ástandinu sem skapaðist nú á mörkuðunum á Spáni, þar sem verðið féll alveg gríðarlega og það var bara hreint og beint þannig að menn töpuðu á því að flytja inn á markaðinn, verðin voru svo erfið, þá getur verið skynsamlegt fyrir greinina að geta fært aflann yfir til næsta árs í þeirri von að úr rætist á mörkuðum í staðinn fyrir að veiða og vinna og jafnvel sitja uppi með miklar birgðir eða í það minnsta að þurfa að losa sig við þær á mjög lágu verði. Engin vissa er fyrir því að slíkt gerist, en menn eru þá í það minnsta ekki að fara í framleiðslu í stöðu sem er fyrir fram algjörlega vonlaus. Þannig að rök eru fyrir slíku ákvæði, hvort um er að ræða 33% eða 15% ætla ég ekki að gera að miklu umtalsefni, en þó vil ég benda á að það sem er ekki veitt á yfirstandandi ári verður veitt á því næsta. Sé minna framboð núna eða minna veitt á yfirstandandi ári, þá bætist það bara við veiðina á næsta ári. Ég hef þá trú að það valdi engum vandræðum í lífríki hafsins þegar menn horfa á það hvort þeir eru að veiða eitthvert ákveðið magn á 24 mánuðum eða 12, ég held að það sé ekkert sem setji okkur í hættu.

En hvað varðar síðan áfram 2. gr., þá er þar í d-lið ákvæði sem mér þykir áhugavert. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að skylt sé að vinna einstakar tegundir uppsjávarfisks til manneldis.“

Væntanlega er þetta til komið vegna þeirrar umræðu sem var um makrílveiðar fyrir nokkru síðan. Mér þykir þetta nokkuð rúm heimild, satt best að segja, að ráðherra geti hlutast til um allar uppsjávarveiðar og vinnslu á uppsjávarfiski hvenær sem er, væntanlega þá með málefnalegum hætti ætla ég, en það er sama. Í makrílveiðunum birtist sá vandi að þar er um að ræða frjálsar veiðar, þar er veitt án þess að menn séu með kvótakerfi, þar veiða menn í kapp í ólympískum veiðum. Það er vandinn. Það er auðvitað verkefni stjórnvalda að leysa þann vanda, ekki að bregðast við honum með því að segja: „Við ætlum að stýra því hvað þið vinnið, í hvaða vinnslulínur þið eigið að setja þann afla sem þið komið með að landi.“ Ég held að þessi hugsun sé röng nálgun á þeim vanda sem upp hefur komið, m.a. vegna makrílveiðanna, aðrar leiðir séu heppilegri til að leysa það og við getum svo sem rætt það einhvern tímann síðar, en það er ekki, held ég, góð stjórnsýsla að ráðherra sitji á skrifstofu sinni með sérfræðingum sínum og vegi það og meti fyrir útgerðirnar og fiskvinnsluna í landinu, hvort fara eigi í þessa vinnslulínuna eða hina. Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Það segir sig bara sjálft.

Síðan hvað varðar 3. gr., þar sem um er að ræða veiðiskylduna, sem oft hefur verið hér til umræðu, þá er ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að fara þá leið sem hér er lagt upp með, að auka við veiðiskylduna. Og af hverju er það, frú forseti? Vegna þess eftir því sem veiðiskyldan er hærri, því minna framboð er á leigukvóta. Og hvað þýðir það? Eftir því sem framboðið er minna, því hærra verður verðið. Með öðrum orðum, fyrir nýliða, þá sem eru að koma nýir inn í greinina, er það erfiðara og dýrara, það eru færri sem eiga séns. Ég tel, frú forseti, að það sé ekki skynsamlegt að byggja kerfi þannig upp að nýliðar eigi erfiðara með að komast inn en áður. Það getur vart verið skynsamleg nálgun að því verkefni sem við höfum fyrir framan okkur.

Reyndar virðist það vera þannig að ákveðin þversögn sé fólgin í frumvarpinu að það sé annars vegar hugsað þannig að með því að draga úr yfirfærsluheimildunum og auka þar með framboð á leigukvóta, sé á sama tíma dregið úr framboði á leigukvóta með því að auka veiðiskylduna. Ég held að menn þurfi svolítið að skoða þessa nálgun, það að auka veiðiskylduna gerir ekki bara nýliðum erfiðara fyrir, heldur þýðir það líka að hagkvæmni í greininni minnkar. Það sér hver maður í hendi sér. Allar þessar gríðarlegu áhyggjur um brask eru þó þess eðlis að menn verða aðeins að horfa á það, að það þarf tvo til, það þarf leigusala og leigutaka. Einhvern sem telur sig hafa hag af því að leigja kvótann, vill gera það frekar en ekki, einhvern sem vill gera það í sínum rekstri. Þegar það gengur þannig fyrir sig, þá erum við auðvitað að auka hagkvæmni í sjávarútvegi. Ég held að þeir tímar séu nú á Íslandi að ekki sé rétt að draga úr hagkvæmni í sjávarútvegi. Ég geri mér grein fyrir því, frú forseti, að um þetta eru deildar meiningar, en þetta er mín skoðun.

Það sem ég tel nú skipta kannski einna mestu máli, það sem snýr að skötuselnum, kemur einmitt fram á heimasíðu Frjálslynda flokksins, þar er færsla sem ég tel að sé allrar athygli verð, með leyfi frú forseta:

„Fisktegundin skötuselur hefur verið tekin út fyrir kvóta. Vissulega vildum við frjálslyndir ganga lengra í þessu máli en dropinn holar steininn. Það að skötuselur hafi verið tekinn út fyrir kvóta eru merkileg tíðindi.“

Þar sem þetta kemur frá höfundum frumvarpsins og þeim sem virðast bera einna helst ábyrgð á því að frumvarpið er komið hér inn í þingsal, þá er ástæða til að staldra við og velta fyrir sér þessari fullyrðingu. Þetta er rétt hjá talsmönnum Frjálslynda flokksins, alveg hárrétt. Þetta eru mikil tíðindi. Þetta er breyting í grundvallaratriðum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem við höfum búið hér við. Þetta er grundvallarbreyting. Ég verð að segja eins og er að mér finnst rökstuðningur sá sem hefur komið fram í greinargerð frumvarpsins hvers vegna nauðsynlegt sé að grípa til þessara aðgerða sem ríkið ætlar sér, að leigja út kvótann, mér finnst hann ekki mjög burðugur. Þar kemur fram, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Í ljósi þess að útbreiðsla skötusels hefur breyst verulega frá því að aflaheimildum var úthlutað á grundvelli veiðireynslu og skötuselur hefur í auknum mæli verið að veiðast sem meðafli hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðað að breytingar verði gerðar á lögum í því skyni að auka aðgengi útgerðarmanna að aflaheimildum í skötusel.“

Nú er það bara þannig að fisktegundir breyta um hegðan, þ.e. sú staða getur komið upp fyrir norðan land, eins og hefur gerst, að þar er allt í einu farin að veiðast mikil ýsa, breytingar geta orðið á göngu síldarstofnanna, breytingar geta orðið á því hvar þorskurinn veiðist o.s.frv. Það að stofnar breyti hegðan sinni, getur ekki orðið grundvöllur fyrir úthlutun veiðiheimilda, í það minnsta ekki innan núverandi kerfis. Þannig að sé þetta grunnurinn að ákvörðun hæstv. ráðherra, þá hljóta menn í greininni að spyrja sig þeirrar spurningar: „Á hverju eigum við von? Hvert er þá rekstraröryggið í greininni?“

Nú taka menn þegjandi og hljóðalaust á sig heilmiklar skerðingar, vegna þess að nauðsynlegt er talið að grípa til slíkra aðgerða, í þeirri vissu að þegar kemur að því að aflaheimildir verði auknar, fái þeir að njóta aukningarinnar. Nú bætist við sú óvissa sem hér er búin til og búið til fordæmi fyrir og þess vegna er þetta einmitt áhugavert og mikilvægt eins og kemur fram hjá Frjálslynda flokknum, þá bætist við sú óvissa að ef fisktegundin breytir göngu sinni, þá ætlar sjávarútvegsráðherrann hæstv. sér að breyta aflaúthlutuninni og kvótakerfinu. Þannig að ég bið hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að íhuga vel akkúrat það sem hér er sagt og velta því fyrir sér hvort þetta sé nægjanlegur grunnur fyrir þessari aðgerð. Ég tel að svo sé ekki.

Eins tel ég að það sé misskilningur að ætla að tegundir fari ekki í kvóta nema þær séu í einhvers konar útrýmingarhættu, en í umræðunni hefur borið á því að ástæðan fyrir því að skötuselurinn eigi ekki að vera í kvóta sé að hann hafi ekki verið í útrýmingarhættu. Kvótakerfið er ekki sett á til þess einungis að vernda fiskstofna heldur til að tryggja hagkvæma nýtingu á fiskstofnunum.

Við sjáum þetta akkúrat, frú forseti, í makrílveiðunum, þar sem eru ólympískar kappveiðar, þar sem við lendum einmitt í því sama og þegar við vorum með sóknarmarkið, eins og var þegar við vorum með skrapdagakerfið, þar sem var kappveiði, þar sem menn gátu ekki unnið fiskinn í bestu og fínustu pakkningarnar, af því menn höfðu á ákveðnum tíma á árinu ekki til þess getu í vinnslu sinni. En um leið og menn geta jafnað þetta meira út yfir árið, þá geta menn einmitt gert hámarksverðmæti úr því sem er veitt. Það er akkúrat þessi tegund af fiskveiðistjórnarkerfi sem við viljum ekki fara í, við viljum ekki fara í kerfi sem er einmitt það sem við höfum séð hjá ESB og löndum, sem byggja á þessum sömu mistökum. Hví skyldum við nú breyta okkar kerfi í þessa átt? Hví skyldum við gera það, hæstv. forseti? Hví skyldum við vera að fara að breyta því af því margt þarf að skoða upp á kerfið. En hví skyldum við höggva í þann grundvöll sem þó er, sem tengir það saman að þegar menn þurfa að taka á sig skerðingu vegna þess að það er líffræðilega nauðsynlegt, þá geti þeir átt von á því að þeir fái líka til baka þegar betur gengur. Það verður algjörlega ómögulegt að fá nokkurn mann til að sætta sig við skerðingu á aflaheimildum í framtíðinni ef niðurstaðan verður sú sem hér er boðuð í frumvarpinu sem þeir flytja hér saman hæstv. sjávarútvegsráðherra og Frjálslyndi flokkurinn.