138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:19]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hann mælti fyrir í síðustu viku. Þó svo að sumir haldi því fram að þetta frumvarp sé í rauninni frumvarp Frjálslynda flokksins, þá hygg ég að hæstv. ráðherra vilji eigna sér málið og ég treysti því að hann standi við þá skilmála sem aðilar þessarar greinar hafa komið sér saman um að starfa innan.

Ég vakti máls á því í andsvari við framlagningu málsins að stóra spurningin í framsöguræðu hæstv. ráðherra hefði verið sú hvernig færi með þá sátt sem svo brýnt væri að ná fram í þessum mikilvæga málaflokki sem sjávarútvegsmálin eru vissulega. Ég held að við getum öll verið sammála um að á þeim tímum sem við lifum nú og störfum í þurfi þjóðin á því að halda að allar atvinnugreinar skili sem mestum arði til þjóðarbúsins og að það hjálpi til við að vinna okkur í gegnum þann skafl sem fram undan er og við erum stödd í miðjum. Þess vegna er stóra spurningin um sjávarútvegsmálin, og hugsanlega breytingar sem menn vilja kunna að gera á þeim, í huga mínum sú hvort þetta auki hagkvæmnina í greininni og skapi meiri verðmæti en áður hafði verið.

Hér hefur verið vitnað til þess að ríkisstjórn Íslands hafi gefið aðilum vinnumarkaðarins og þar með sjávarútveginum líka fyrirheit um að engar stórar breytingar yrðu gerðar á sjávarútvegsmálum landsins fyrr en að loknu starfi nefndar sem skipuð var í sumar. Í máli manna hefur komið fram mjög skýrt og skorinort við umræðuna að það frumvarp sem lagt hefur verið fram gangi þvert á þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hafði gert. Sú umræða hefur verið ágætlega rökstudd að þetta gangi þvert á þau fyrirheit sem gefin voru. Ég vil í því tilefni, virðulegi forseti, leyfa mér að vitna til ræðu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra flutti fyrir rúmum hálfum mánuði á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna og leyfi mér að vitna orðrétt í það sem ráðherra sagði þar, með leyfi forseta:

„Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessari sömu stefnu í heiðri. Rétt er að nota tækifærið og tiltaka að samtök ykkar hafa tekið fullan þátt í starfi hópsins þó það hafi án alls vafa verið samtökunum erfitt í byrjun. Ég fagna bara aðkomu ykkar að þessu máli.“

Svo mörg voru þau orð hæstv. ráðherra og ég vænti þess að hann muni leggja sig fram um að standa vörð um þá yfirlýsingu sem hann gaf við þetta tækifæri ásamt því að standa vörð um þá yfirlýsingu sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið í þessum efnum.

Ég minnist þess, virðulegi forseti, að þegar það frumvarp sem hér liggur fyrir kom fyrst fram voru ein af fyrstu viðbrögðum hæstv. ráðherra þau að gefa í skyn að frumvarpið væri sett fram á Alþingi og út í þjóðfélagið m.a. til þess að reyna að ná fram viðbrögðum við þeim hugmyndum sem það fæli í sér. Ég trúi því tæpast að það hafi verið meining hæstv. ráðherra því ég þekki hann af öðru en sýndarmennsku því sýndarmennska væri það ein að vinna málin með þeim hætti sem hér liggja fyrir.

Þegar við ræðum þessa sátt í fiskveiðistjórnarkerfinu, þá spyr maður: Hver er að kalla á hana? Algengasta svarið við þeirri spurningu er að það sé þjóðin sem kalli á þá sátt sem nauðsynleg sé. Þá spyr maður líka: Hver ætlar sér að greina þá þræði sem kalla á og leggja inn í þá sátt? Er hægt að fullyrða það með frumvarpinu að búin verði til meiri sátt um það fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið alla tíð mjög umdeilt? Í huga mínum eru starfsskilyrði þessarar atvinnugreinar með þeim hætti, því miður, að hún er sett á uppboð, venjulega á fjögurra ára fresti, hefur alltaf verið gert í kringum hverjar kosningar. Það er hins vegar nokkuð nýtt að það sé unnið með þeim hætti hér og nú, á miðju kjörtímabili og í upphafi þess að setja ákveðna þætti hennar á uppboð án þess að tengja það annarri vinnu við þá framkvæmd að breyta ákvæðum og innihaldi atvinnugreinarinnar.

Menn hafa talað um að veiðiheimildir safnist á fárra manna hendur, það séu sömu sægreifarnir svokallaðir sem sitji alla tíð að þessum veiðiheimildum. Þá spyr maður á móti hvernig í ósköpunum standi á því að veiðiheimildir frá því fiskveiðistjórnarkerfið var sett á laggirnar hafa gengið kaupum og sölum alla tíð og fyrir liggur að þær hafa skipt um hendur í 85–90% tilvika. Þær eru komnar í umsjá annarra en höfðu verið í upphafi, allt að 85% þeirra veiðiheimilda sem þá var úthlutað.

Þá ætla menn að horfa þannig til að ríkisvaldið geti með ákveðnum hætti gripið inn í þessa þróun og skipt þessu á allt annan hátt en þeir sem á markaðnum hafa starfað og kosið sér það hlutskipti, væntanlega með það að meginmarkmiði að hámarka arðsemi sjálfs sín vissulega en jafnframt hámarka arðsemina fyrir allt þjóðfélagið.

Í huga mínum er frumvarpið ekkert smáatriði. Hér er tekist á um, eins og komið hefur fram í umræðunni, grundvallaratriðin varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Það lýtur að því hvernig framsalið á að eiga sér stað. Verið er að kippa inn í það með því að fara inn í þá tegund sem skötuselurinn er. Menn kalla það tilraun til að breyta úthlutun á aflaheimildum. Þarna er fyrst og fremst verið að setja á laggirnar og setja af stað uppboðsmarkað sem ég tel að sé algjört stílbrot á því kerfi sem við höfum verið að vinna eftir og teldi ef menn hafa hug á því að gera þetta miklu nær að vísa þessu atriði inn í þá vinnu sem hafin er í þeirri nefnd sem margoft hefur verið rætt um að verði einhver grunnur að sátt ef við getum kallað sem svo í þessu umdeilda máli.

Hitt atriðið lýtur að tilflutningi aflaheimilda milli fiskveiðiára. Þar er verið að draga, eins og bent hefur verið á, úr hagkvæmni kerfisins. Vissulega er það hins vegar svo að menn hafa skipst í nokkur horn, nokkra hópa, varðandi það hvort gerlegt sé að skapa meiri sátt um kerfið með því að draga úr veiðiskyldu. Ég get alveg upplýst að ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta sé atriði sem vel megi ræða en tel þó að það þurfi og beri að skoða það í heildarsamhengi.

Ég vil nefna sérstaklega bráðabirgðaákvæði IV í lagafrumvarpinu sem lýtur að því að takmarka yfirfærslu aflaheimilda milli fiskveiðiára á þessu fiskveiðiári um 10%. Þetta er grundvallarbreyting sem verið er að gera á starfsskilyrðum greinarinnar. Við skulum hafa það í huga að við erum komin inn á það fiskveiðiár sem sú breyting á að taka gildi og taka til. Mér finnst mjög vafasamt að grípa þannig inn í starfsskilyrði atvinnugreinar sem þarf að skapa sem mest verðmæti þegar hún er búin að marka sér stefnu. Hún er búin að leggja plön sín fyrir þetta fiskveiðiár á grundvelli þeirra reglna sem um starfsemina gilda. Þetta er í huga mínum mjög hart ákvæði að beita og réttlætingin á því kom fram í máli hæstv. ráðherra þegar frumvarpið var lagt fram og raunar talsmönnum frumvarpsins líka við þá umræðu í andsvörum, að þessi breyting væri gerð núna á yfirstandandi fiskveiðiári til þess að hámarka þann afla sem kæmi inn til atvinnusköpunar í íslensku þjóðfélagi þessa stundina. Það er ekki á neinn hátt litið til þeirra ráðstafana og þeirra ákvarðana sem atvinnugreinin sjálf hefur gert og skuldbindingar sem hún hefur undirgengist þegar ákvæði sem þetta er sett fram. Af því ég veit að hæstv. sjávarútvegsráðherra er mikill áhugamaður um landbúnað líka skora ég á hæstv. ráðherra að sjá það fyrir sér hvernig menn geti takmarkað starfsskilyrði annarra atvinnugreina. Tökum dæmi úr landbúnaðinum um sauðfjárbónda sem hefur gert áætlanir sínar um starfsemi búsins til lengri tíma. Ef hann fengi fyrirmæli um að skera meira niður af stofni sínum en ætlað var, leggja meira af afurðum sínum til þjóðfélagsins ef við hefðum þurft á því að halda, þá værum við með því að setja allar áætlanir hans, öll starfsskilyrði búsins í hættu með ákvæði sem þessu. Það sama gildir um sjávarútveginn að sjálfsögðu vegna þess að þetta er atvinnurekstur sem gerir ekki áætlanir sínar til eins árs eða tveggja ára, þetta er hugsað í lengra tímaplani. En hér er beinlínis gert ráð fyrir því að sjávarútvegurinn hugsi og geri ráðstafanir sínar á þann hátt að hann horfi ekki lengra en til nokkurra mánaða. Það er ósanngjarnt og óhagkvæmt líka fyrir þjóðfélagið að vinna þannig í þeirri atvinnugrein sem hér um ræðir.

Ég læt liggja á milli hluta þá umræðu sem hér hefur orðið um hvort sjávarútvegsráðherra beri og hafi betri og meiri skilning á því en þeir sem starfa í greininni, hvort viðkomandi fisktegund, uppsjávarfiskurinn, eigi að koma inn í vinnslu til manneldis eða ekki. Ég treysti því og verð að trúa því að þetta ákvæði verði, ef þetta gengur eftir, útfært á þann hátt að það séu í rauninni þeir sem starfa í viðkomandi atvinnugrein sem leggi upp línurnar fyrir þetta, því með fullri virðingu fyrir þekkingu og getu hæstv. ráðherra og ráðuneytis hans, þá held ég að þetta ákvæði sé best lagt í mat þeirra sem eru í sem nánastri snertingu við atvinnugreinina.

Ég tiltók sérstaklega þau atriði sem mér finnst lúta að því að menn eru að fara inn í grunnatvinnuveg þjóðarinnar, sem sjávarútvegurinn er, gera þar og hyggja á miklar breytingar án þess að gefinn sé kostur á því að þeirri sátt sem nauðsynleg er að um þetta ríki sem mest, sé haldið við. Ég batt vonir við að þeirri nefnd sem sett var á laggirnar gæfist tími til í þessu umdeilda máli að fara vandlega yfir kosti og galla þess að gera breytingar á þessu en frumvarp þetta er algjör stílbrjótur í því efni, því miður.

Ég heiti á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þær athugasemdir sem fram koma í umræðunni verði teknar til greina og þessu verkefni og viðfangsefni sem hann hefur lagt fram í formi frumvarps verði vísað í þann farveg að fara inn til þeirrar nefndar sem að störfum er og væntanlega skilar af sér fyrr en síðar. Ég vona það svo sannarlega því ég er ekki talsmaður þess að halda uppi háværum deilum um þessa atvinnugrein. Ég geri mér það fullkomlega ljóst að um hana eru og verða ætíð skiptar skoðanir en við megum ekki undir neinum kringumstæðum vinna með þennan málaflokk þannig að við drögum úr hagkvæmni þess að gera út, veiða fisk, verka fisk og selja hann á sem bestu verði. En því miður er ýmislegt sem bendir til þess að ef frumvarp hæstv. ráðherra gengur eftir verði þessum grunni okkar raskað og þá er verr af stað farið en heima setið.

Virðulegi forseti. Ég skora hér með á hæstv. ráðherra að leggja sitt af mörkum að það frumvarpsígildi sem hér liggur fyrir verði með einhverjum hætti dregið til baka og skotið til vinnu í þeirri nefnd sem ætlað er að ná meiri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið, þó svo að ég taki ekki undir þau orð hæstv. ráðherra sem komu fram við framlagningu frumvarpsins þar sem hann sagði aðspurður að hann teldi að sem mestri sátt væri hægt að ná um fiskveiðistjórnarkerfið með því að sjávarútvegsstefna vinstri grænna yrði höfð að leiðarljósi. Ég er þeirrar skoðunar, með fullri virðingu fyrir stefnu vinstri grænna, að það sé ekki sú leið sem geti orðið til þess að sameina þjóðina ef vilji manna stendur til þess um þetta umdeilda og mikilsverða mál.