138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:39]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli þeim útúrsnúningum sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, minn gamli skólabróðir, viðhefur á mínum orðum. Ég hef ekki sett fram kröfu um að ákveðinn hópur eigi ekki aðild að umræddum starfshópi sjávarútvegsráðherra. Íslenskir útvegsmenn eiga að sjálfsögðu aðild að þeim starfshópi, það er sjálfsagt og eðlilegt mál, enda var þeim skipað þar til verka ásamt öðrum fyrr í sumar. Þeir hafa hins vegar núna kosið að hunsa þennan starfshóp og mæta ekki þar til starfa eftir að þetta frumvarp sem hér er til umræðu var lagt fram. Það sýnir líka í hvaða stellingum menn eru. Hér er ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar á íslenskri fiskveiðistjórnun þó að veitt sé leyfi til að veiða 2.000 tonn af skötusel umfram áður ákveðið aflamark. Hins vegar er verið að gera þarfa og kærkomna tilraun til þess að taka gjald fyrir úthlutun þessarar viðbótar með öðrum hætti en verið hefur.

Íslenskir útvegsmenn eiga náttúrlega að nota það tækifæri sem þeir hafa núna til að taka í útrétta hönd stjórnvalda og þiggja það tækifæri sem þeir hafa til þess að koma raunverulega að borðinu þar sem teknar eru ákvarðanir um framtíð íslenskrar fiskveiðistjórnar. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá að koma og sitja til borðs með öðrum sem hafa hagsmuna að gæta í þessari grein og koma með raunverulegu og heilbrigðu hugarfari að þeirri vinnu. Að setja allt í uppnám, og ég tala nú ekki um þegar þingmenn tala eins og það eigi að vera hægt að taka mál úr þinglegum farvegi til þess að þóknast útvegsmönnum, er of langt gengið.