138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna á um hvað þetta frumvarp fjallar. Menn eru komnir út um víðan völl og gera því skóna að hér séu stórbreytingar á ferðinni. Sama hvaða skoðanir ég hef á því að mikilvægt sé að gera grundvallarbreytingar vil ég bara minna á um hvað þetta frumvarp fjallar.

Í fyrsta lagi að heimilað verði að stunda veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar eru stundaðar. Þetta snýr að ferðaþjónustunni til að liðka fyrir því að menn geti bæði stundað ferðaþjónustu á frístundaveiðum og atvinnuveiðar. Er það ekki gott mál? Er það kollvörpun á kerfinu? Nei, ekki að mínu mati.

Í öðru lagi að dregið verði úr heimildum til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. Sérstaklega er kveðið á um í bráðabirgðaákvæði að á þessu fiskveiðistjórnarári verði heimildin 10%. Er það grundvallarbreyting? Nei, það er breyting á stuðlum á milli ára til að færa afla og aflaheimildir inn á það ár sem þeim er úthlutað á. Sveigjanleikinn er samt sem áður 15–20% því það má færa 5% inn á næsta ár. Þetta er því engin grundvallarbreyting en talin brýn og sjálfsögð.

Línuívilnun er aukin til að nýta það aflamark sem var sett í línuívilnun á sínum tíma. Það var eitt af þeim góðu verkum sem Einar Kristinn Guðfinnsson gerði sem sjávarútvegsráðherra að mínu mati, að koma á línuívilnun. Eruð þið á móti því? Ekki held ég það.

Heimild til að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski. Erum við ekki sammála um að það sé nauðsynlegt að hafa það inni? Jú. Svokölluð veiðiskylda er aukin til þess að fiskur sé veiddur af þeim sem ætlast er til að veiði hann eða þeir leigi hann þá frá sér til þess að hann sé veiddur. Jú. Heimild til að flutningur aflamarks frá skipi verði takmarkaður. Jú, þetta hefur verið krafa margra um langan tíma. Þetta er engin kollvörpun á kerfinu. (Forseti hringir.) Þarna er verið að sníða af augljósa agnúa sem enginn vill hafa á kerfinu. (Forseti hringir.) Svona mætti áfram telja, frú forseti, og ég get komið að fleiri góðum atriðum sem ég hef trú á að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sé mjög hrifinn af.