138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal alveg viðurkenna að ég hafði meira gaman af því að vinna með hæstv. ráðherra að gerð fjárlaga en að hlýða á rökstuðning hans fyrir því frumvarpi sem hefur orðið hlutskipti hans að leggja hér fram. Það eru alveg hreinar línur í því. Hvernig sem menn reyna að snúa sig út úr því er grunnhugmyndin í því frumvarpi sem hér liggur fyrir tvíþætt, þ.e. annars vegar að gera breytingar á framsali veiðiheimilda og hins vegar að takmarka flutning á veiðiheimildum milli fiskveiðiára. Önnur atriði sem í því frumvarpi sem hér liggur fyrir eru smærri í sniðum. Ég skal viðurkenna það hér fyrir hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, að ég rak augun í eitt atriði í frumvarpinu sem er þess eðlis að ég fagna því. Það er að afnema skylduna af línubátum til að landa afla sínum í þeirri höfn sem þeir lögðu upp frá. Ég held að þetta sé fyrst og fremst öryggisatriði, þótt ekki væri annað. Þetta er ekki alvont að þessu leytinu til, en stóru línurnar í frumvarpinu eru það sem ég er að mæla gegn, mæla eindregið gegn. Við höfum fengið viðbrögð við þessu frumvarpi hæstv. ráðherra þess eðlis að menn líta þessa frumvarpssmíð þeim augum að verið sé að taka til handa við verkefni sem ættu að vera í þeim eðlilega og góða farvegi sem markaður var af ríkisvaldinu og hagsmunaaðilum í greininni fyrr í sumar. Ég hvet þess vegna hæstv. ráðherra eins og ég gerði í ræðu minni að beina vinnunni (Forseti hringir.) sem hér er kallað á í þann sama farveg sem hún var sett í í sumar.