138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki verður annað sagt en að hæstv. ríkisstjórn er ansi lagin við það að setja höfuðatvinnuvegi landsins í ákveðið uppnám og þetta frumvarp er alveg sérstaklega til þess fallið, sérstaklega ef horft er til þeirra aðstæðna sem við búum við núna og þeirrar umræðu sem fer fram um mögulegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta á reyndar við um orkufrekan iðnað í landinu líka og aðrar þær atvinnugreinar sem við þurfum að byggja okkar viðreisn á.

Fiskveiðistjórnarkerfið gæti örugglega verið með einhverjum öðrum hætti og ég tek undir það að mikilvægt er að reyna að ná um það sem víðtækastri sátt. Mörg umræðan um þetta kerfi hefur þó farið fram án þess að skilningur á því sé kannski mjög djúpur eða mikill. Það er mjög mikilvægt í allri þeirri vinnu sem fer fram varðandi fiskveiðistjórnarkerfið að ekki verði fórnað þeim góðu kostum sem þetta kerfi er einnig gætt. Við erum rekum hér einhvern hagkvæmasta sjávarútveg í heimi, fram hjá því verður ekki horft, og hann grundvallast á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum haft hér á landi síðustu áratugi. Við getum borið okkur saman við Evrópusambandið í þessu sambandi og horft á þær styrkgreiðslur sem þar liggja til sjávarútvegsfyrirtækja. Ef við ættum að setja sömu styrkgreiðslur inn í íslenskan sjávarútveg mundu það vera um 100 milljarðar á ári sem þyrfti að borga með sjávarútveginum. Í stað þess skilar sjávarútvegurinn okkur gríðarlegum verðmætum. Við veiðum mikið magn, við erum að veiða um 2 milljónir tonna á meðan Evrópusambandsþjóðirnar veiða rúmlega 5 milljónir tonna.

Leikreglur hafa verið skýrar hér og atvinnugreinin hefur getað treyst á það að starfa í föstum skorðum og byggja upp sína framtíðarmöguleika. Þetta á ekki síst við um fjölmargar smábátaútgerðir út um land, sem hafa vaxið mjög á undanförnum árum og eru grunnurinn að atvinnustigi í mörgum sjávarþorpum og þeirri mögulegu vinnslu sem þar fer fram, fiskvinnslu. Þessir aðilar hafa á undanförnum árum verið að fjárfesta í kvóta. Þetta hefur verið grunnurinn að þeirri nýliðun sem er í kerfinu. Stundum hefur þessi kvóti verið á of háu verði að manni finnst, en þar hefur auðvitað ráðið mikil eftirspurn umfram framboð og þessir aðilar þurfa að standa skil á sínum skuldum í dag, þessir nýliðar í greininni. Þeir treysta á að geta leigt inn með sínum kaupum, jafnframt því að fara í frekari kaup geta þeir leigt til sín einhvern kvóta til að geta haldið uppi öflugri útgerð.

Við verðum líka að hafa það í huga að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur ítrekað fjallað um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið og telur framsalið og framsalsmöguleika einn af hornsteinum þess og grundvöll í hagkvæmni kerfisins. Um þetta framsal hefur reyndar mesti styrinn staðið. Sú gagnrýni er að mörgu leyti skiljanleg þar sem menn hafa selt sig út úr greininni á undanförnum árum og fengið út úr því ansi mikil verðmæti, en það er bara atriði sem sett var á hér fyrir u.þ.b. 20 árum síðan. Þeir sem starfa í greininni í dag eru velflestir búnir að kaupa sinn kvóta, hafa spilað eftir þeim leikreglum sem voru ákveðnar í ríkisstjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks, sem voru í ríkisstjórn þegar framsalið var sett inn í fiskveiðistjórnarkerfið.

Sum atriði þessa frumvarps orka verulega tvímælis og eru til þess að auka enn á óvissuna í greininni sem er nægjanleg fyrir vegna yfirlýsinga núverandi hæstv. ríkisstjórnar um svokallaða fyrningarleið. Skötuselsákvæðið til að mynda er alveg nýtt, ný nálgun í okkar fiskveiðistjórnarkerfi, þar sem sú skerðing sem þær útgerðir sem hafa fjárfest í þeim kvóta á undanförnum árum kemur ekki til baka. Útgerðirnar sitja áfram með skuldirnar af þeim kvótakaupum en fá ekki núna til baka þá skerðingu sem þær urðu fyrir. Það hlýtur líka að orka tvímælis þegar verið er að auka kvóta um 80% í einni tegund. Það eru ekki rök í málinu að þessi stofn sé svo nýr á Íslandsmiðum að það sé engin áhætta tekin. Á einhverjum forsendum lagði Hafrannsóknastofnun það til að minnka kvótann í skötusel á milli fiskveiðiára, úr 3.000 tonnum í 2.500 tonn. Það er ekki gert bara af því það er einhver tala sem þeim datt í hug. Fyrir því hefur stofnunin fullgild rök að hennar mati. En þarna er verið að auka þetta um 80%.

Þá er spurningin: Er þetta fordæmi fyrir það sem koma skal? Því hljóta menn í greininni að velta fyrir sér og skapar náttúrlega heilmikla óvissu í greininni. Og er þetta sjálfbær nýting á þessum stofni eða er verið að láta náttúruna njóta vafans ef þekking á þessum stofni er ekki nægileg fyrir? Við höfum umfram allt lagt á það áherslu á alþjóðavettvangi og í okkar fiskveiðistjórn að náttúran njóti vafans. Þessar ákvarðanir eru lagðar fram af ráðherra á meðan verið er að reyna að nálgast í málefnalegri umræðu einhverjar sáttaleiðir um þetta kerfi, þar sem búið er að draga að borðinu alla hagsmunaaðila og verið að reyna að vinna einhverja sáttaleið. Það er ekki verið að þóknast útgerðarmönnum með því og það er ekki verið að þóknast útgerðarmönnum stórra útgerða í málflutningi okkar sjálfstæðismanna. Það er fyrst og fremst verið að þóknast sjávarútvegi á Íslandi, stórum og smáum útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslum um allt land, reyna að draga úr þeim óstöðugleika sem búið er að kalla yfir á þessum vettvangi.

Sú vinna sem er í gangi grundvallast á stöðugleikasáttmálanum. Það er alveg ljóst að Samtök atvinnulífsins hefðu aldrei undirritað stöðugleikasáttmálann ef fyrir hefðu legið þær leiðir sem hæstv. ríkisstjórn er að fara, það á bæði við um sjávarútvegsmál og orkufrekan iðnað. Það er alveg ljóst að þau voru látin skrifa undir stöðugleikasáttmálann á fölskum forsendum. Ríkisstjórnin er engan veginn að standa við þau loforð sem hafa verið gefin. Það á við um kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna og málefnasamninginn þar sem kveðið er svo sterkt á um fyrningarleiðina sem hefur komið fram í máli ákveðinna hv. þingmanna, sérstaklega Samfylkingarinnar, að verði farin, alveg sama hvað tautað verður. Þetta hefur sett einhverja mestu óvissu að greininni í áratugi. Vinnu í þeirri nefnd sem átti að skipa um málið átti að ljúka fyrir 1. nóvember. Nú er búið að fresta því til 1. febrúar og vonandi tekst nefndinni að vinna sig niður á einhverja niðurstöðu fyrir þann tíma þannig að koma megi á meiri festu og öryggi í þessum rekstri.

Margir stjórnarþingmenn, sérstaklega Vinstri grænna, gera sér orðið grein fyrir því að þessi fyrningarleið verður aldrei farin. Þetta er ófær leið, hún getur aldrei gengið upp. Hún er að hafa það í för með sér — sú ógn sem vofir yfir greininni, og þetta frumvarp er alveg til þess fallið að kynda þann eld og ýta undir þá óvissu sem er — að útgerðir um allt land, smáar og stórar útgerðir, halda að sér höndum varðandi allar nýframkvæmdir, alla fjárfestingu. Þetta er farið að koma verulega niður á þeim fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn. Þetta vita hv. þingmenn. Þetta er að gerast út um allt land. Stór fyrirtæki, smá fyrirtæki sem hafa lifibrauð sitt af því að þjónusta þessa mikilvægu grein, finna fyrir miklum samdrætti í allri sinni starfsemi og eftirspurn eftir þjónustu. Afleiðingarnar eru skelfilegar og það stefnir í mjög alvarlegt ástand í sjávarbyggðum um allt land. Það er talað um að strax um og eftir áramót muni fiskvinnslur fara að loka, þær muni hætta að vinna og smábátaútgerðir, menn munu hætta að fara á sjó. Þegar er farið að bera á þessu. Það verður að bregðast við þessum þáttum. Það gerist ekki með því að setja fram enn eitt frumvarpið eða hugmyndir sem kannski er eitthvað gott í. Ég er ekki að segja að það séu ekki góðir hlutir í þessu frumvarpi líka sem sátt getur verið um, en það eru aðrir hlutir, mjög stór atriði sem eru mjög umdeilanleg og er mikilvægt að reynt sé að ná sátt um í þeirri nefnd sem er að störfum, sem er að vinna að sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Það er alveg með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin kýs að vinna í þessu máli og svo mörgum öðrum þegar kemur að íslensku atvinnulífi.

Ég vil taka undir þær áskoranir sem hafa komið fram hér til hæstv. sjávarútvegsráðherra, um að draga þetta frumvarp til baka eða að það verði tekin formleg ákvörðun um það í hv. sjávarútvegsnefnd að við setjum málið á ís og bíðum eftir þeirri vinnu sem er í gangi. Ég held að við mundum gera vel í því að reyna að ná sátt um það og segjast þá ætla að hlusta á þær breytingartillögur sem koma fram og koma út úr þessu nefndarstarfi.

Það er ekkert í þessu sem bráðliggur á. Það er ekki hægt að færa nein haldbær rök fyrir því að í þessu frumvarpi séu hlutir sem bráðliggur á að fara í. En það bráðliggur á því að við setjum eitthvert frekara öryggi að greininni. Það bráðliggur á því að við bætum við þann kvóta sem ákveðinn var fyrir þetta fiskveiðistjórnarár þannig að það fari að aukast streymi inn á leigumarkaðinn, inn á viðskipti með kvóta, bæði í leigu og kaupum. Það bráðliggur á því svo við fáum hjólin til að snúast í þessari mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. En það er alveg eins og hæstv. ríkisstjórn skilji ekki mikilvægi þess að höfuðgreinar atvinnulífsins fái frið til að starfa við þær erfiðu aðstæður sem eru í samfélaginu. Það er eins og það sé bara ekki skilningur fyrir því hversu mikilvægt það er og á hverju við ætlum að byggja okkar viðreisn.

Það var með ólíkindum að hlusta hér á hæstv. ráðherra þar sem hann lagði upp rök sín (Gripið fram í.) fyrir því að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi aflamörk fyrir þetta ár í hinum mismunandi fisktegundum og síðan kemur hann núna og brýtur það allt saman. Hann lagði upp þau rök að ríkisstjórnin ætlaði að fylgja sjálfbærri stefnu. Gerir ríkisstjórnin það? Það er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera í þessum efnum hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er eins og ég segi, til þess fallið að setja atvinnulífið í uppnám. Það er ástæða fyrir því að fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna mættu ekki á nefndarfundi fyrir helgi. Það er vegna þess að það er búið að setja starf þessarar nefndar í uppnám. Ástæðan er sú að þeir sögðust vera tilbúnir til þátttöku á þessum vettvangi, tilbúnir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að vinna að sátt í greininni, tilbúnir að leggja í þá vinnu að ná fram einhverjum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. En grundvallaratriðið var alveg skýrt, það var ekki á þeim grunni að það ætti ræða hvernig ætti fara fyrningarleiðina og það var ekki á þeim grunni sem verið er að setja fram í þessu frumvarpi. Það eru þessi vinnubrögð hæstv. ráðherra sem verið er að mótmæla með þessu. Hvers vegna er verið að setja þetta allt í uppnám?

Ef við ætlum að ná vopnum okkar í viðreisn íslensks samfélags gerist það ekki nema höfuðatvinnugreinar okkar fái að dafna. Það gerist ekki nema við förum í skynsamlega og aukna nýtingu á náttúruauðlindum okkar, bæði til handa orkufrekum iðnaði í landinu og uppbyggingu sjávarútvegs. Það verður ekki sagt með neinum rökum að aðgerðir núverandi ríkisstjórnar séu til þess fallnar að efla trú á þá leið.