138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hér kemur fram hjá hv. þingmanni, við veiðum minna og minna, og minna og minna. Það er nefnilega vandi íslenskrar fiskveiðistjórnar að á áratugum er ekki komin í ljós hin aukna hagkvæmni og hagsæld af veiðistjórninni, því miður. Ég ætla ekki að hafa uppi neinar kenningar um það hvað valdi en hagsældin hefur ekki aukist í tengslum við íslenskan sjávarútveg þrátt fyrir veiðiráðgjöf undanfarinna áratuga.

Það var önnur mótsögn í máli hv. þingmanns sem ég vil líka vekja athygli á. Hann gagnrýnir harðlega þá aukningu sem frumvarpið gerir ráð fyrir í skötusel en segir í hinu orðinu að það bráðliggi á að auka hér við kvóta og aflamark. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hafi sem sjálfstæðismaður lagt til t.d. 40.000 tonna aukningu í þorskkvóta þannig að mér finnst ákveðin mótsögn í málflutningi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins þegar þeir í einu orðinu gagnrýna harðlega að veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sé ekki fylgt en krefjast þess í hinu orðinu að farið sé í að auka aflamark.