138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem staðið hefur um þetta frumvarp hefur á margan hátt verið málefnaleg og efnisleg en hins vegar verður að segjast eins og er að hún hefur ekki að öllu leyti verið til þess fallin að skýra það frumvarp sem hér liggur fyrir eða þann raunverulega tilgang sem býr að baki því. Að vísu sagði hæstv. ráðherra í ræðu sinni þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði að markmiðið væri að reyna að draga úr sveigjanleikanum í sjávarútveginum og það má til sanns vegar færa að hæstv. ráðherra hefur á margan hátt tekist vel upp við að draga úr sveigjanleikanum, draga úr möguleikanum á hagkvæmninni, sem er sjónarmið sem ég get hins vegar ekki tekið undir. Ég ætla að taka tvö dæmi.

Hér hafa komið fram mjög ólík sjónarmið um hvort hið umrædda skötuselsákvæði sé á einhvern hátt stefnumarkandi um það sem gert verður að öðru leyti í fiskveiðistjórnarkerfinu. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði á það mikla áherslu í andsvari fyrir helgina að þetta væri ekki stefnumarkandi ákvæði, þetta væri eingöngu ákvæði sem snerti þessa einstöku tegund. Aðrir þingmenn hafa hins vegar vakið athygli á því að hér sé komið mjög gott fordæmi sem ástæða sé til að beita við aðrar fisktegundir.

Auðvitað má segja sem svo að úr því að rök hæstv. ráðherra eru þau að það þurfi að beita þessari aðferð vegna þess að útbreiðsla skötuselsins hafi verið að breytast geti sömu rök átt við um fleiri tegundir, alveg eins og ég vakti athygli á varðandi ýsuna, um síldina og steinbítinn, svo ég taki dæmi af þremur fisktegundum. En það væri mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra taki af skarið og segi hvort hann telji að ákvæðið varðandi skötuselinn sé að hans mati líklegt til að vera á einhvern átt stefnumarkandi um þær breytingar sem hann vill sjá á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það skiptir miklu máli að heyra hvert sjónarmið hæstv. ráðherra er í þessum efnum. Sama má segja síðan um það ákvæði sem kemur fram í 3. gr. frumvarpsins, sem er þess efnis að þar er gert ráð fyrir því að reyna að draga úr eða auka veiðiskylduna með það að markmiði að minnka framsalið og þar með framboðið af leigukvóta. Hér hafa ýmsir hv. þingmenn fagnað þessu og bent á að þetta muni leiða til þess að framboðið af leigukvóta dragist saman. En hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði hins vegar á aðalfundi LÍÚ að leigumarkaður á kvóta sé talinn nauðsynlegur fyrir hagkvæmni fiskveiðistjórnarinnar og fjölbreytni í sjávarútvegi og mörg fyrirtæki, jafnvel heilar byggðir, hafi reitt sig mjög á þennan leigumarkað. Þess vegna beri sjávarútvegsfyrirtæki og stjórnvöld sameiginlega ábyrgð á því að hann sé virkur en ekki afnuminn í einu vetfangi. Hæstv. ráðherra segir með öðrum orðum að það sé mjög mikilvægt að til staðar sé leigukvóti, en leggur síðan fram frumvarp sem hefur þann yfirlýsta tilgang að draga úr vægi leigukvótans.

Hæstv. ráðherra og ýmsir aðrir hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að minnka geymsluskylduna á milli ára. Ég fullyrði að verði hæstv. ráðherra að ósk sinni mun það leiða til þess á þessu fiskveiðiári að útflutningur á ferskum og óunnum fiski mun aukast. Það leiðir til meiri kraftveiði. Það leiðir til þess að fiskvinnslufyrirtækin geta ekki hagrætt eins og þau þyrftu að geta gert við svo ótryggar aðstæður eins og nú eru uppi. Þess vegna mun það fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra mælir fyrir leiða til þess að meiri óunninn fiskur fer úr landi og það getur vel verið að það sé ætlun hæstv. ráðherra að stuðla að því.

Ég vil nefna eitt atriði í viðbót. Í þessu frumvarpi er ákvæði þar sem kveðið er á um að hæstv. ráðherra hafi sérstaka heimild til að skylda eða setja reglur sem leiði til þess að aukinn hluti af uppsjávarfiski fari til manneldisvinnslu. Sú staða sem er uppi varðandi makrílinn hefur vakað yfir í þessari umræðu. Hæstv. ráðherra vakti að vísu athygli á því að gagnstætt því sem margir hafa talið fóru samt sem áður um 30% af kvótanum til manneldisvinnslu. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða sjónarmið hefur hann uppi í þeim efnum? Hvernig hyggst hann beita þeirri heimild sem hann hefur? Hyggst hann fara með heimildina varðandi makrílinn upp í 70%? Hyggst hæstv. ráðherra beita þessari heimild varðandi aðrar tegundir í uppsjávarfiski, eða hvað er það sem býr að baki? Það er óþolandi að hæstv. ráðherra sé að reyna að næla sér í galopnar heimildir til að geta nánast farið með framkvæmd fiskveiðistjórnarlaganna að eigin vild. Hann hefur annars vegar opnað á heimild í þessu frumvarpi um að draga úr geymsluréttinum en hins vegar (Forseti hringir.) hefur hann galopna heimild til að geta farið með geymsluréttinn þess vegna upp í 100%. Það er ekki þolandi (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra næli sér í svona miklar heimildir, ekki nema hann geri okkur grein fyrir því hvernig hann hyggst fara með (Forseti hringir.) og nýta sér þessar heimildir sem hann aflar sér hér.