138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var einfaldlega að benda hv. þingmanni á að ef veiðimunstur viðkomandi útgerðar sem ég nefndi verður eins á næsta ári og það er núna þá er það þannig að þú verður að vera með kvóta innan þessa lokahólfs, þ.e. suður úr Krýsuvíkurvita og suðaustur úr Hvítingum, þar þarftu að hafa heimildir í skötusel en það geturðu ekki leigt út úr þessum potti. Ef viðkomandi útgerð verður að fara niður fyrir fimm tonn áður en hún fær að leigja úr pottinum, sem er þá á þessu frísvæði alls staðar þarna fyrir utan, klárar viðkomandi útgerð allan sinn kvóta inni á þessu frísvæði sem hún hefur til þess að veiða á þessu lokaða svæði.

Það sem hefði gerst hér og ég er að benda hv. þingmanni á er að þá hefði þessi útgerð ekki haft sama aðgang að því að leigja út úr þessum potti og hinir. Ég verð að minna á að í þessum potti, þessum allt að 2.000 tonnum sem menn eru að tala um, eru 350–400 skammtar. Ég sé fyrir mér að þeir muni klárast mjög fljótt vegna þess að allir bátar, alveg sama hvort þeir fara í beina skötuselssókn eða annað, á öllum öðrum veiðum, munu leigja til sín þessar heimildir því að þær hafa jú komið sem meðafli.

Þá langar mig í framhaldi af þessu að beina til hv. þingmanns spurningu. Úthlutun á veiðiheimildum á síðasta kvótaári var 3.000 tonn en nú fer hún niður í 2.500 tonn sem er 16% fyrning að mínu mati. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á í ræðu sinni hefur skötuselurinn breitt mikið úr sér. Hefði þá ekki verið skynsamlegra að segja — af því að hann vitnaði sérstaklega í grásleppuveiðar — að þeir sem væru á grásleppuveiðum mættu vera með jafnmikið af skötusel fyrir utan kvóta inni í þessum potti eins og hrogn? Eða að þeir sem væru á dragnót, trolli eða línu eða hvað sem er mættu þá hugsanlega vera með 2% eða 5% af því sem þeir veiddu sem meðafla til þess að koma til móts við þetta (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður benti réttilega á?