138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og þarna er hæstv. sjávarútvegsráðherra. Nú ætla ég að segja það í upphafi máls míns að ég ætlast til þess að hann komi í andsvar vegna þess að hann gerði það ekki áðan en hefur farið trekk í trekk í andsvar við aðra og meira að segja farið út í það að lesa frumvarpið upp á það að menn væru að fjalla um hvað stæði í því. Ég vil benda hæstv. ráðherra á það að þegar hann fór í andsvar áðan þá talaði hann mjög mikið um strandveiðar en ég hef ekki rekist á nein ákvæði í þessu frumvarpi um þær.

Þá vil ég segja, eins og ég sagði í dag í ræðu minni, að ef hæstv. ráðherra getur nefnt mér eitt atriði í þessu frumvarpi, eitt atriði, þó ekki væri nema eitt, sem ekki getur beðið til loka janúarmánaðar þegar nefndin sem nú er að störfum skilar af sér. Hvaða eitt atriði hastar því að það getur ekki beðið, bara eitt? Vegna þess að að mínu viti er ekkert í þessu frumvarpi sem þarf að afgreiða með þessum hraða. Það er þannig, frú forseti, að ríkisstjórninni er eðlislægt að fjalla akkúrat um mál sem ekki þarf að eyða tíma í og skilja eftir öll þau mál sem þarf að ræða, hvernig á að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum o.s.frv. Klára fjárlagafrumvarpið, ljúka fjáraukalögunum, nei. Það er sett á dagskrá hér hvert vitlausa málið á fætur öðru.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á það hjá hæstv. ráðherra og kalla þá eftir hans sjónarmiði vegna þess að margir hafa haft samband við mig. Ef línan er stokkuð upp í landi mega þá bátar með beitningavél njóta svokallaðrar 15% ívilnunar? Er það alveg klárt og klippt og hver er skoðun ráðherrans á því? Misvísandi skilaboð eru komin frá stjórnarliðum um það hvernig þeir túlka þetta ákvæði. Mjög mikilvægt er að hæstv. ráðherra kveði upp úr um það hvernig þetta er hugsað í þessu frumvarpi, þannig að þeir aðilar sem eru með beitningavélar um borð núna og eru að fara að rífa þær út í stórum stíl til að kaupa sér línu og fara á handbeitta línu út af þessari aukningu sem á sér stað — hver er skilningur ráðherrans á þessu í frumvarpinu?

Síðan langar mig líka að koma aðeins inn á það af því að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom og sagði í andsvari við hv. þm. Jón Gunnarsson að hér væru engar breytingar heldur eingöngu viðbót. Þá vil ég bara benda á það, frú forseti, að úthlutun á skötusel á síðasta kvótaári var 3.000 tonn. Núna er 2.500 tonnum úthlutað. Að mínu viti er þetta 16% fyrning á veiðiheimildum hjá þeim aðilum sem hafa haft heimildir í skötusel og algerlega óviðunandi hvernig þetta er gert.

Mig langar líka að velta því upp við hæstv. ráðherra, af því að nú er eitt mál sem menn hafa rætt mjög lengi, þ.e. gagnvart þessari línuívilnun, að menn þurfa, eins og þetta er í dag, að landa í sömu höfn og þeir fara út úr innan sólarhrings. Margoft hefur verið bent á og menn hafa rætt um að mikil slysahætta sé af þessu, hvers vegna er ekki tekið á því í þessu frumvarpi? Hver er þá vilji ráðherrans til að menn megi landa í annarri höfn innan þessa eins sólarhrings tíma sem er? Það er ekkert gert með.

Síðan langar mig líka að fá skýrari svör hjá hæstv. ráðherra, af því að hann á eftir að flytja ræðu sína hér á eftir, að þessi breyting á karfaúthlutuninni sem þýðir að fullt af skipum sem munu fá úthlutað karfa, þessum svokallaða djúpkarfa sem er þá einn þriðji af þeim kvóta sem þeir hafa eða 30%, geta ekki veitt hann. Það er ekki fræðilegur möguleiki að viðkomandi útgerðir geti veitt þennan karfa. Þær hafa ekki skip til að veiða hann. Finnst hæstv. ráðherra skynsamlegt að færa aflaheimildir þarna á milli manna eða útgerða og það er klárlega fyrir séð að stór hópur útgerða geti ekki nýtt sér þann möguleika að veiða þennan kvóta?

Síðan langar mig að koma örlítið inn á það hvort hæstv. ráðherra hefði ekki talið skynsamlegra að setja inn einhver ákvæði í sambandi við breytingar á útbreiðslu skötusels um að bátar sem stunda ekki beinar skötuselsveiðar, hvort sem þeir eru á línu eða dragnót, fengju þá hlutfall af afla sínum, þ.e. kannski 5% eða eitthvað svoleiðis, frítt utan kvótans til að mæta þessari útbreiðslu og breytingu á hegðun skötuselsins.

Svo að lokum til að tryggja það, frú forseti, að ég fái eitthvert svar frá hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) af því að ég veit að hann er sérfræðingur um kynhegðun skötusels, hvort hann mundi þá vilja fara aðeins yfir hana með mér.