138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra segir að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd muni fjalla um það sem lýtur að þessari línuívilnun. Mjög mikilvægt er að menn taki þetta af því þetta er eingöngu öryggismál og á ekki að vera neitt, þetta eykur ekkert þrýstinginn eða neitt. Þetta er fyrst og fremst öryggismál sjómanna.

Hins vegar vil ég líka fagna því sem hæstv. ráðherra segir að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fái svigrúm til að fara einmitt yfir úthlutun í djúpkarfa og gullkarfa. Mig langar til að setja þetta í smásamhengi. Ef tvö skip eru að veiða á sama svæði, annað í flottroll og hitt í botntroll og toga hlið við hlið, þá er afli þess sem veiðir í botntrollið skráður sem gullkarfi en afli þess sem veiðir í flottrollið við hliðina á honum skráður sem djúpkarfi vegna þess að þetta blandaðist svo saman. Þess vegna er svo mikilvægt að þeir aðilar sem geta eingöngu veitt í botntroll fái að njóta þess og fái þá ekki úthlutanir í einhverjum veiðiheimildum sem þeir geta ekki nýtt. Það sem mun gerast, eins og ég benti á í ræðu minni í dag, er einfaldlega að stóru skipin sem geta veitt djúpkarfann með flottrolli munu að sjálfsögðu skipta á heimildum við minni togskipin og á þá náttúrlega miklu lægri stuðli vegna þess að hinir hafa ekki aðgang og geta ekki veitt djúpkarfann þannig að þeir verða að selja frá sér gullkarfann fyrir mun minna.

Síðan langar mig að benda á það, frú forseti, rétt í lokin, að það sem er líka að gerast í þessu er að við erum alltaf að taka stærri og stærri hluta út úr kerfinu með sértækum aðgerðum, hvort sem það er byggðakvóti, línuívilnun eða þar fram eftir götunum. Bara á síðasta ári voru 10% tekin af þeim sem voru með aflaheimildir í þorski fyrir utan kerfið. En þeir sem eru með aflaheimildir í karfa láta einungis um 1% af aflaheimildum sínum (Forseti hringir.) inn í svokallaðan byggðakvóta og þar fram eftir götunum þannig að mjög mikilvægt er að það verði líka skoðað vel og rækilega.