138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessu sem hæstv. ráðherra endaði á. Það er alveg klárlega þannig að í fyrra var 3.000 tonnum úthlutað en núna um 2.500 tonnum. Þetta er 16% fyrning hjá þeim sem eru með veiðiheimildir í skötusel. Það er svoleiðis. Þess vegna spurði ég hann hvort honum fyndist sanngjarnt að taka eina tegund og fyrna hana. Margir bátar og útgerðir hafa keypt sér varanlegar heimildir í skötusel og látið jafnvel aðrar tegundir frá sér. Þess vegna finnst mér mjög ósanngjarnt að hafa þá ekki a.m.k. úthlutað 3.000 tonnum og haft svo eitthvert fiff og fíníseringar með hitt eins og hæstv. ráðherra er að gera.

Síðan langar mig aðeins til viðbótar að benda á að um línuívilnun sem var sett á sínum tíma, þessi 16%, hefur ríkt „mikil sátt“. Auðvitað eru ekki allir sáttir við hana en ég bendi líka á, og maður þarf ekki annað en að horfa sér nær, að þeir bátar sem gera út á línu fá líka ákveðið forskot hvað varðar slægingarstuðul vegna þess að slægingarstuðullinn er fastur í 16% (Forseti hringir.) og þar er klárlega hallað á til viðbótar.