138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka þá spurningu sem ég lagði fram til hæstv. sjávarútvegsráðherra í ræðu minni áðan sem snýr að því hvernig menn sjái fyrir sér þessa úthlutun, hvernig menn sjái fyrir sér það kerfi sem var lagt til grundvallar, það að búið er að setja ákveðið fast verð, 120 kr./kg. Nú kann að vera að fleiri vilji sækja um þetta en raunverulegt rúm er til, þetta eru 2.000 tonn, talað um 5 tonn á bát og þá geta menn reiknað það út. Til að átta sig á því geta menn séð hvaða fjöldi nýrra skipa kom á sjó vegna frístundaveiðanna eða strandveiðanna sem fóru af stað í sumar þannig að menn átti sig á fjölda báta á Íslandi. Það er staðreynd, og ég vek athygli hæstv. ráðherra á því, að af þessum 2.500 tonnum sem var úthlutað á þessu fiskveiðiári sem hófst fyrir tveimur og hálfum mánuði má ætla að nú þegar sé búið að veiða 1.700 tonn af skötuselnum, 68% eða svo, (Gripið fram í.) einhvers staðar í kringum það. Hvað þýðir það? Það þýðir að það er mikil eftirspurn eftir þessu, það er mikil veiði, tveir og hálfur mánuður er liðinn og það er komið langleiðina sem segir okkur auðvitað að það verða mjög margir um þessi tonn sem hæstv. ráðherra ætlar sér að úthluta á 120 kr. hvert kíló. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við ef fleiri sækja um en hann hefur raunverulega mögulega úthlutun fyrir? Hann setur sér hámark við 2.000 tonn. Það eru 120 kr./kg, ef þetta eru hagkvæmar veiðar munu menn sækjast eftir þessu, það er augljóst og þá skiptir máli hvernig á þessu er haldið.