138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt að koma. Ég hef spurt hæstv. ráðherra nokkurn veginn sömu spurninganna í þrígang og nú er ég búinn að fá svar við einni. Þetta er út af fyrir sig mjög áhugavert og mjög mikilvægt svar sem hæstv. ráðherra gaf.

Ég spurði hvort skötuselsákvæði frumvarpsins væri á einhvern hátt fordæmisgefandi og ég held að ekki hafi verið hægt að túlka svar hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að þetta hafi verið eins og hann orðaði það sérstæð aðgerð og hafi ekki fordæmi um annað og það er mjög þýðingarmikið. Hér er ekki um það að ræða að verið sé að brjóta í blað í fiskveiðipólitísku sambandi.

Ég spurði ekki einungis um geymsluréttinn, ég spurði einnig um vinnsluskylduna, hvernig hæstv. ráðherra hygðist beita þessu opna ákvæði sem hann hefði til að setja á vinnsluskyldu. Ég spurði sérstaklega fyrr í umræðunni um það hvort hann mundi láta sér duga t.d. 30% vinnsluskyldu í ljósi þess að hann vitnaði með dálítilli velþóknun í að það hefði gerst varðandi makrílinn. Ég ítreka þess vegna þann hluta spurningar minna hvort hann vilji nefna einhverjar tölur eða hvort hann vilji skýra frekar hvernig hann hyggist beita því ákvæði fái hann heimild frá Alþingi til þess.