138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég hef áður sagt hér um það hvernig kveðið er á um þessi mál í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem flokkaðar eru annars vegar brýnar aðgerðir og hins vegar ákvæði sem hefur yfirskriftina Endurskoðun laga um fiskveiðar. Þar stendur og ég bið menn að átta sig á því að lesa öll þau atriði sem þarna er talað um. Þau eru þá hluti af heild hvert og eitt:

„Lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að:

1. stuðla að vernd fiskstofna

2. stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar

3. treysta atvinnu

4. efla byggð í landinu

5. skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar

6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Það verður að lesa öll þessi atriði saman. Þau eru á vegum þessa starfshóps sem á að fara yfir þau miðað við að móta framtíðarstefnu og leggja mat á öll þessi atriði, ekki bara eitt, og vega þau saman. Innan starfshópsins er þá að sjálfsögðu kallað eftir upplýsingum og hópurinn vinnur eins og ráð hefur verið fyrir gert og ég treysti honum vel til þess.

Ég bendi á þessi atriði, menn festa sig gjarnan í einu atriði en þarna eru þau mörg saman.

Ég ítreka líka það sem ég hef áður nefnt að á samfélagslega ábyrgð útgerðar eins og annars atvinnulífs í landinu hvað varðar byggð og fleira þurfum við að horfa saman.

Frú forseti. Þetta var það sem ég vildi segja varðandi ræðu hv. þingmanns og þær tillögur sem hv. þingmaður mælti þarna fyrir, ég vildi benda á þessi atriði.