138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er rætt um þá þingsályktunartillögu hv. þm. Illuga Gunnarssonar o.fl. um að ríkisstjórninni verði falið að lýsa því yfir að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. Raunar er mótsögn í þeirri yfirlýsingu sem felst í þingsályktunartillögunni því að þar er þess krafist að fallið verði frá fyrningarleið af því að það sé svo mikilvægt að gefa sér enga niðurstöðu fyrir fram. Samt vilja flutningsmenn gefa sér það fyrir fram að ekki verði farin sú leið sem kosið var um í síðustu alþingiskosningum, sú stefna sem borin var fram af báðum stjórnarflokkum, stefnan sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kallar hótun en ég vil segja að sé loforð og var auðvitað kosningaloforð. Ég held að hagsmunaaðilum í sjávarútvegi væri nær að ganga til samstarfs við íslensk stjórnvöld um nauðsynlegar breytingar á núverandi kvótakerfi, þiggja þá útréttu hönd sem þeim hefur verið rétt, koma að borðinu og vera hluti af þeim sáttum sem þarf að ná við sjálfa þjóðina um þetta mál, ekki bara við útgerðina heldur líka við þjóðina.

Áróðursstríðið sem nú er háð gegn eðlilegum og tímabærum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu er í raun og veru í sáralitlu samræmi við tilefnið, eins og ég hef áður rætt á þessum vettvangi, og það á mun meira skylt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála. Menn hrópa hér hrun yfir sjávarútveginn í landinu, verði fyrningarleiðin farin, tala eins og verið sé að hrammsa frá þeim þeirra lögmætu eign og þjóðnýta hana, eins og það er oft orðað, og gott ef byggðir munu ekki leggjast í eyði og fiskveiðar leggjast af við strendur landsins. En það er því miður fátt sem fær staðist í þessum málflutningi útvegsmanna og talsmanna þeirra á Alþingi. Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af eða byggðir fara í eyði þó að útgerðarmenn verði með formlegum hætti að horfa upp á að því, sem þeir kalla eignarrétt sinn, verði breytt í nýtingarrétt í samræmi við markmið núgildandi laga og þó að stofnaður yrði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum yrði ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu gegn hóflegu gjaldi. Því er einmitt þveröfugt farið því að það er núverandi kvótakerfi eins og það er í dag sem hefur kallað alvarlega röskun yfir byggðir landsins. Það ætti hv. þm. Illugi Gunnarsson að þekkja mörgum öðrum betur, svo nátengdur sem hann er Flateyri við Önundarfjörð þaðan sem útgerðarmaðurinn seldi og fór með 3 milljarða í vasanum fyrir tveimur eða þremur árum og skildi byggðarlagið eftir í sárum, byggðarlagið sem kallar hv. þm. Illuga Gunnarsson tengdason Flateyrar.

Ég vil líka minna á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga í framhaldi af því sem við erum að tala um og það sem hv. þingmaður kallar séreignarrétt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. […] Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildunum.“

Það er með öðrum orðum þjóðin sem á fiskinn í sjónum, við getum kallað það ríkið, í lögunum stendur „þjóðin“ og ég hef hingað til gert greinarmun á þjóð og ríki. Það var frá fyrstu tíð vilji löggjafans að útgerðin hefði nýtingarrétt á þessari auðlind, ekki eignarhald. Það er algerlega skýrt í þessari markmiðslýsingu. Það er fráleit fullyrðing að innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta sé einhvers konar umbylting á fiksveiðistjórnarkerfinu. Þaðan af síður fær það staðist að hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi muni leiða hrun yfir greinina.

Það má rifja það upp, sem hefur reyndar oft komið til umræðu á þessum vettvangi, að við erum að tala um kerfi sem samkvæmt úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Þetta kerfi sem felur í sér sams konar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem ollu efnahagshruninu í haust. Ég segi sams konar meinsemd. Ég er ekki að tala um að núverandi skuldir sjávarútvegsins séu orsök efnahagshrunsins sem við lentum í í haust. Ég er að tala um að inn í kerfið er innbyggð þessi sams konar meinsemd. Við erum að tala um kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, þótt þær hafi skipt um hendur síðan, með þeim afleiðingum að LÍÚ hefur slegið eign sinni á fiskinn í sjónum. Fiskveiðiauðlind þjóðarinnar sem er eign þjóðarinnar en ekki LÍÚ. Aflaheimildirnar úr þessari þjóðarauðlind hafa útgerðir landsins meðhöndlað sem söluvöru, sem skiptagóss og leiguvarning og þær hafa veðsett aflaheimildirnar.

Menn tala eins hið frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda, kvótakerfið, sé einhvers konar fyrirmyndarkerfi sem ekki megi raska. En hvernig stendur þá á því að svo illa er komið fyrir sjávarútveginum að gamli grátkórinn hrópar hrun yfir greinina ef hróflað verður við þessu kerfi? Ætli það sé ekki frekar hin geigvænlega yfirveðsetning og skuldastaða greinarinnar sem skapar henni meiri hættu en þær breytingar sem boðaðar hafa verið? Sjávarútvegurinn skuldar 550 milljarða kr., atvinnuvegur sem á síðasta ári hafði 170 milljarða kr. tekjur og hefur — af því að það kom til tals í máli hv. þingmanns rétt áðan — frá árinu 2005 skuldað meira en helming umfram ársveltu á hverju ári, en vitanlega jukust skuldirnar hratt síðasta árið eftir hrun. Þessar skuldir hafa aukist um 250% á síðustu sjö árum, þ.e. þrisvar sinnum meira en tekjur greinarinnar. Það er athyglisvert að af þeim 500 millj. sem greinin skuldar er um það bil helmingur vegna kaupa á skipum og kvóta, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason nefndi. Hinn helmingurinn er vegna afleiðusamninga, hlutabréfakaupa og áhættuviðskipta, má segja, utan greinarinnar. Það er raunveruleg hætta á því í ljósi þessarar stöðu að íslenskar aflaheimildir renni úr höndum okkar Íslendinga og lendi í höndum erlendra fjármálastofnana og kröfuhafa. Samkvæmt upplýsingum sem birtar hafa verið opinberlega kemur fram að innan við helmingur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja stendur traustum fótum. 27% eiga sér ekki viðreisnar von og annar eins fjöldi þarfnast tímabundinna aðgerða, þ.e. getur ekki staðið við skuldbindingar sínar eins og sakir standa. Síðan eru nálægt 40% sem segja má að séu starfrækt á eðlilegum rekstrargrundvelli.

Ég held að eina leiðin til að forða því að veiðiheimildirnar lendi í höndum erlendra fjármálastofnana sé þess vegna að styrkja í verki markmið og fyrirmæli íslenskra laga um að aflaheimildir á Íslandsmiðum séu í reynd eign íslensku þjóðarinnar en ekki einstakra útgerðarfyrirtækja. Staðreyndin er nefnilega sú að núverandi kvótakerfi hefur í gegnum tíðina verið vettvangur fyrir brask. Og þó að það verði ekki sagt um hvern einasta útgerðaraðila — því að vitanlega fyrirfinnast vel rekin útgerðarfyrirtæki og einstakir útgerðarmenn sem reka fyrirtæki sín af ábyrgð — er engu að síður staðreynd að í greininni hafa viðgengist óvönduð meðul. Í því sambandi gæti verið fróðlegt fyrir þingheim að kynna sér vel skýrslu tveggja laganema á Bifröst, þeirra Þórðar Más Jónssonar og Finnboga Vikars Guðmundssonar, um þá meðferð aflaheimilda sem viðgengst í þessari atvinnugrein. Það er athyglisverð lesning og vönduð greining á ástandinu.

Frú forseti. Ég treysti því að sú ríkisstjórn sem nú situr láti einskis ófreistað að knýja í gegn þær breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem kjósendum var heitið fyrir síðustu kosningar og skýrt er kveðið á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ef LÍÚ ætlar að halda áfram sínu stríði við stjórnvöld vegna fyrirhugaðra breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu skulu samtökin átta sig á því að þau eru í stríði við íslenska þjóð. (Forseti hringir.) Þetta er eitt mesta réttlætismál sem komið hefur upp í íslensku samfélagi á síðustu árum og þessi þingsályktunartillaga er að mínu viti hreint út sagt fráleit.