138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er sérkennileg málfundartækni að gefa sér forsendurnar og fara svo að rökræða þær. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tíma verið talað um að kalla inn eignir bótalaust. Ég vil nota allt önnur hugtök yfir það sem fram undan er. Ég mundi frekar vilja tala um að breyta því sem útvegsmenn kalla eignarrétt sinn í afnotarétt, nýtingarrétt. Ég sé heldur ekki ástæðu til að við séum í þessum ræðustóli að reyna að leiða til lykta það starf sem starfshópi sjávarútvegsráðherra hefur verið falið. Þó svo að útvegsmenn hafi stokkið á braut úr starfi þeirrar nefndar um hríð treysti ég því að þeir muni koma til starfa aftur og taka þátt í því starfi og því verkefni sem þeim hefur verið falið, þ.e. að leiða þetta mál til lykta. Ég hef enga trú á öðru en að ef menn virkilega leggja sig fram og reyna að horfa af einhverri sanngirni á þetta mál, takist þeim að ná einhverri niðurstöðu. En sá átakafarvegur sem þetta hefur verið í frá upphafi og þær stríðsstellingar sem menn eru í gera mönnum óneitanlega mjög erfitt fyrir. Ég neita því ekki og það er áhyggjuefni.