138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki mitt hlutverk að útfæra fyrningarleiðina. Það er hlutverk þess starfshóps sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sett á laggirnar. Sá starfshópur er með tiltekna verklýsingu og það er í verkahring þeirra sem sitja við það borð að leggja til útfærslu og sáttina í þessu máli. Ég er óbreyttur stjórnarþingmaður. Ég styð þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég stjórna ekki því ferli. Ég styð það hins vegar og ber í brjósti ákveðna von um hverjar lyktir þess máls megi verða.

Ég ætla ekki að fara í orðahnippingar og orðhengilshátt við hv. þingmann um hvernig eigi að útfæra þessar breytingar. Ég er hins vegar þeirrar sannfæringar að breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi séu brýnt hagsmunamál fyrir byggðir landsins og tvímælalaust þjóðþrifamál sem ætti að geta verið til þess fallið að bæta rekstrarstöðu og treysta frekar starfsskilyrði íslenskra útgerðarfyrirtækja og gera þau öflugri en verið hefur.