138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:05]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði ímynd sjávarútvegsins að umfjöllunarefni og taldi hana vera bæði ósanngjarna, óréttláta og ranga og ég er honum nokkuð sammála um það. Ég hef starfað í sjávarútvegi í yfir 30 ár og gert það nánast að lífsstarfi mínu stærsta hluta ævinnar. Ég er nokkuð sammála hv. þingmanni um að ímynd greinarinnar sé ekki góð út á við, hún er það alls ekki. En það er ekki að gerast núna. Ég ætla að frábiðja mér það og ég bið hv. þingmann um að undanskilja mig í það minnsta ef hann heldur að flutningsmenn eða stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telji að innan sjávarútvegsins starfi bara bófar og bandítar. Mér kemur ekki til hugar að segja slíkt, ég ætla eiginlega að óska eftir því að hann dragi þau orð sín hér til baka, alla vega hvað mig varðar. Þetta er grein sem ég er alinn upp í og mér þykir vænt um og innan þessarar greinar þekki ég og hef verið samferða fjöldanum öllum af fólki og ég kannast ekki við það að þar séu bófar og bandítar á ferð. Þannig að ég bið um að vera undanskilinn í þeirri upptalningu og veit að orðið verður við því.

En ímynd sjávarútvegsins skiptir mjög miklu máli sem og það að þessi mikilvæga og sterka atvinnugrein í gegnum tíðina hafi góða ímynd og njóti virðingar í samfélaginu og að við fjöllum um hana þannig. Þess vegna eigum við ekki að biðjast undan því að takast á um deiluatriði í greininni, ekki biðja um að málum sé ýtt út af borðinu, vegna þess að við verðum að ljúka þessari umræðu. Á einhverjum tímapunkti verðum við að ljúka þessari umræðu til að viðhalda ekki óvissunni.