138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:15]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þá meinlegu rökvillu sem hv. þingmaður taldi sig hafa komið auga á og fylgdi þar í fótspor annars þingmanns, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, er það nú svo að sú nálgun ríkisstjórnarinnar sem birtist í þeim sex liðum sem sérstaklega lúta að endurskoðuninni, eru fimm af þeim liðum almenns eðlis. Sjötti liðurinn eru alveg sérstök fyrirmæli um að ráðist verði í þessa fyrningu á næstu 20 árum og hún kláruð. Þetta er allt annars eðlis og þarna eru bein fyrirmæli um niðurstöðu máls og síðan er nefndinni væntanlega ætlað að útfæra niðurstöðuna. Það er það sem stingur í stúf, það er það sem er rangt. Það að ríkisstjórnin dragi þetta til baka gerir það ekki að verkum. Ég verð að segja eins og er að það er nokkuð meinleg rökvilla hjá hv. þingmanni. Það þýðir ekki að nefndin geti síðan komist að þeirri niðurstöðu sjálf á sínum eigin forsendum að ráðast eigi í einhvers konar afskriftaferli. Það er síðan annað og sjálfstætt mál og er þá á vettvangi nefndarinnar í þeirri samvinnu sem þar á sér stað, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði lagt upp með. Á því er reginmunur. Ég get því glatt hv. þingmann með því að hér er ekki um að ræða neina slíka rökvillu. Ástæðan fyrir því að flutningsmenn þessarar tillögu vilja taka út einmitt þennan þátt í stjórnarsáttmálanum er vegna þess að umfram marga aðra þætti veldur þessi yfirlýsing í stjórnarsáttmálanum miklum skaða í grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum. Yfir það hefur verið farið í löngu máli hér í umræðum í dag bæði hversu mikilvæg greinin er og hversu mikill skaði hlýst af einmitt þessari yfirlýsingu. Það er skaði sem við höfum ekki efni á, frú forseti. Ég held að það sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu að hér sé ekki um að ræða neinn galla á því þingmáli sem (Forseti hringir.) hér hefur verið lagt fram sem neinu nemur, í það minnsta.